Um KMÍ
Á döfinni

11.4.2024

Tónlist Natatorium gefin út af Naxos

Naxos í Danmörku gaf nýverið út tónlistina sem tónskáldið Jacob Groth samdi við kvikmynd Helenar Stefánsdóttur, Natatorium, sem var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Rotterdam snemma árs 2024. 

Útgáfan er sú fyrsta í seríu sem er helguð kvikmyndatónlist eftir áhugaverð norræn tónskáld og er ætlað að kynna hlustendur fyrir nálgun reyndra sem og upprennandi kvikmynda- og sjónvarpstónskálda.

Groth er þekkt kvikmyndatónskáld og hefur samið tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarp síðan 1978. Hann er þekktastur fyrir tónlistina í Millenium-þríleik Stieg Larsson, en hann hefur meðal annars samið tónlist fyrir fimm Emmy-verðlaunaðar framleiðslur. 

„Með djúpstæðum sellóútsendingum býr Groth til myrkan og dularfullan hljóðheim fyrir Natatorium,“ segir í fréttatilkynningu.

Natatorium er íslenskt sálfræðidrama um átján ára stúlku sem flækist í myrka fortíð fjölskyldu sinnar er hún dvelur hjá ömmu sinni og afa. Þetta er fyrsta kvikmynd Helenar Stefánsdóttur í fullri lengd og er hún framleidd af Sunnu Guðnadóttur fyrir Bjartsýn films.

„Dáleiðandi tónsmíðar Jacob Goths blása lífi í húsið, þar sem myndin gerist að öllu leyti, með verkum á borð við Living House, þar sem himnekst bergmál píanótóna læðist á milli viðamikilla strengjastroka,“ segir enn fremur í tilkynningu. „Dempað píanómótífið verður eitt með myrkrinu líkt og viðkvæmt fótatak. Dreymandi en draugalegar raddir fara smám saman að heyrast út frá hljóðmottunni í verkinu After Thoughts, raddverki sem unnið er með söngkonunni Hannah Scheider og Troels Abaahamsen, sem vekur upp tilfinningar fyrir norrænni nostalgíu.“

Tónlistin er aðgengileg á öllum streymisveitum og sem niðurhal.

Natatorium verður aðgengileg á Sjónvarpsstöðvum Símans og Vodafone frá og með 15. apríl.