Um KMÍ
Á döfinni

26.8.2016

Eiðurinn valin til aðalkeppni á San Sebastian hátíðinni

Nýjasta kvikmynd Baltasar Kormáks,Eiðurinn, hefur verið valin til þátttöku í aðalkeppni San Sebastian hátíðarinnar. San Sebastian hátíðin er ein af fáum svokölluðum „A“ kvikmyndahátíðum og því um mikinn heiður að ræða. Hátíðin fer fram í Donostia-San Sebastián á Spáni frá 16. – 24. september.

Eiðurinn mun keppa um Gullnu Skelina, aðalverðlaun hátíðarinnar sem eru veitt fyrir bestu mynd. Myndin verður heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto sem hefst 8. september. Eiðurinn verður frumsýnd hérlendis þann 9. september, um sömu helgi og heimsfrumsýningin fer fram í Toronto.

Eiðurinn segir af hjartaskurðlækninum Finni sem þykir skara fram úr í starfi sínu. Þegar hann áttar sig á að dóttir hans er komin í neyslu og kynnir þekktan dópsala fyrir fjölskyldunni sem nýja kærastann, koma fram brestir í einkalífinu. Finnur ákveður að taka í taumana og er staðráðinn í að koma dótturinni á réttan kjöl, hvað sem það kostar.

Baltasar Kormákur leikstýrir og skrifar handritið að Eiðinum ásamt Ólafi Agli Egilssyni. Magnús Viðar Sigurðsson og Baltasar Kormákur framleiða myndina fyrir RVK Studios. Í aðalhlutverkum eru Baltasar Kormákur, Hera Hilmarsdóttir og Gísli Örn Garðarsson. Óttar Guðnason sér um stjórn kvikmyndatöku, klipping er í höndum Sigvalda J. Kárasonar og Hildur Guðnadóttir semur tónlist myndarinnar. Sölufyrirtæki myndarinnar á alþjóðavísu er XYZ Films.

Um er að ræða fyrsta leikarahlutverk Baltasars Kormáks síðan hann lék í kvikmynd Óskars Jónassonar, Reykjavík Rotterdam, árið 2008.

Árið 2002 tók önnur kvikmynd Baltasars sem leikstjóra, Hafið, einnig þátt í aðalkeppni San Sebastian hátíðarinnar.

Í fyrra vann kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Þrestir, Gullnu Skelina á hátíðinni, sem reyndist marka upphafið að mikilli sigurför myndarinnar um hátíðir heimsins þar sem hún hefur unnið til samtals 19 alþjóðlegra verðlauna. Svipaða sögu er að segja af kvikmynd Benedikts Erlingssonar,Hross í oss, sem vann Kutxa-New Directors verðlaunin á hátíðinni árið 2013 og vann í kjölfarið til fjölda alþjóðlegra verðlauna.