Um KMÍ
Á döfinni

20.12.2019

Nýr samningur styrkir norræna kvikmynda- og sjónvarpsgerð

Menningarmálaráðherrar Norðurlanda ætla að halda áfram að setja norrænar kvikmyndir og sjónvarpsefni í forgang. Ráðherrarnir, ásamt norrænu kvikmyndastofnununum fimm og 16 sjónvarpsstöðvum, hafa nú gert samning við Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn til fimm ára. Samningurinn er sá umfangsmesti til þessa og tekur gildi í janúar 2020. Þrír nýir aðilar eiga þátt að samningnum í ár.

Kvikmyndamiðstöð Íslands, Rúv, Stöð 2 og Síminn eru aðilar og styrkja enn frekar framlag Íslands til sjóðsins en markmið hans er fyrst og fremst að efla kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð á Norðurlöndunum með því að styrkja og fjármagna kvikmyndir, sjónvarpsþátta- og fræðslumyndagerð. Norrænu menningarmálaráðherrarnir hafa lýst yfir ánægju með nýja samninginn, sem á einnig að stuðla að auknum menningarskilningi milli Norðurlandabúa.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra Íslands og formaður menningarmálaráðherranna segir að vinsældir þáttaraða á borð við „SKAM“, „Brúnna“ og „Ófærð“ hafa á undanförnum árum aukið áhorf Norðurlandabúa á efni frá hinum Norðurlöndunum. Norrænt afþreyingarefni geti veitt okkur innsýn í tungumál og menningu hvers annars. Nýi samningurinn er metnaðarfullur og að honum standa fleiri aðilar en nokkru sinni fyrr. Hann mun hjálpa okkur að viðhalda sterkri stöðu á alþjóðamarkaði og jafnframt fjárfesta áfram í börnum og ungmennum, hæfileikaríku fólki og heimildarmyndagerð.

Nýjar forsendur með nýjum samstarfsaðilum

Á sama tíma og norrænum kvikmyndum og sjónvarpsþáttaröðum hefur farnast vel á Norðurlöndum og víðar, hefur dreifing efnis verið að breytast í takt við nýja markaði og breyttar sjónvarpsvenjur. Það útskýrist bæði af tækniþróun og af breytingum á sjónvarpsáhorfi og netnotkun, sérstaklega meðal ungs fólks.

Liselott Forsman, framkvæmdastjóri Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins segist bera miklar væntingar til samvinnu næstu ára. Með nýjum samstarfsaðilum á borð við þvernorrænu fyrirtækin NENT Group og C More Entertainment hefur sjóðurinn opnað dyrnar fyrir norrænum streymisveitum. Þá er norski netvettvangurinn VGTV mikilvægur aðili í heimildamyndagerð og fjarskiptafyrirtækið Síminn styrkir enn frekar framlag Íslands. Í heild sinni er samningurinn staðfesting á því að Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn styður ásamt samstarfsaðilum sínum við framleiðslu á fjölbreyttum sögum og verðlaunaefni. Sjóðurinn stuðlar einnig að norrænu menningarsamstarfi almennt. Hún segir í framhaldinu vera ánægð með áframhaldandi stuðning og traust frá norrænu menningarmálaráðherrunum.

Styrkir til kvikmynda-, heimildarmynda- og sjónvarpsefnisgerðar

Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn styrkir framleiðslu og dreifingu á rúmlega 50 kvikmyndum, heimildarmyndum og sjónvarpsþáttaröðum á ári hverju. Sjóðurinn skipuleggur einnig fjölda viðburða og gegnir hlutverki skrifstofu fyrir kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs sem veitt eru í lok október á hverju ári.

Heildarfjármagn sjóðsins nemur 83 milljónum danskra króna. Þar af er þriðjungur frá Norrænu ráðherranefndinni, þriðjungur frá kvikmyndastofnunum landanna fimm og þriðjungur frá 16 norrænum sjónvarpsstöðvum sem taka þátt í samstarfinu, bæði ríkis- og einkareknum.

Nánari upplýsingar um nýja samninginn (Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn) má finna hér.

Upplýsingar um Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn má finna hér.