Um KMÍ
Á döfinni

11.3.2020

Óskarsverðlaunatónlist Hildar Guðnadóttur lifnar við á Joker kvikmyndatónleikum

Margverðlaunuð kvikmyndatónlist Hildar Guðnadóttur við kvikmyndina Joker  verður flutt í Eldborg í Hörpu þann 31. maí og í Hofi á Akureyri þann 13. júní á tónleika-bíósýningu af Kvikmyndahljómsveit Íslands; SinfoniaNord. Stjórnandi verður faðir höfundarins, Guðni Franzson.

Hildur hlaut Óskarsverðlaun og BAFTA verðlaun fyrir tónlist sína í Joker og braut þar með blað í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar. Hún er fyrsti Íslendingurinn sem vinnur Óskarinn og fjórða konan frá upphafi sem vinnur verðlaunin í flokki frumsamdar kvikmyndatónlistar. 

Í umfjöllun um viðburðinn segir: „Tónlist Hildar er þungamiðjan í tilfinningaþrunginni vegferð aðalpersónunnar Arthur Fleck í kvikmyndinni Joker. Frábær blanda af hráum vélrænum hljóðheimi ásamt áleitnum og undurfögrum strengjatónum, oft einungis selló, skapar undirtón vonar og óbærilegrar spennu. Einstök tónlist Hildar öðlast nýtt líf í flutningi SinfoniaNord og framkallar alveg nýja upplifun á Joker, kvikmynd leikstjórans Todd Phillips og margverðlaunaðri túlkun Joaquin Phoenix í aðalhlutverkinu.“

Joker - Live in Concert verður sýnt víða um Evrópu nú í vor á vegum enska viðburðafyrirtækisins Senbla.

Miðasala er hafin á tix.is þar sem má einnig nálgast nánari upplýsingar um viðburðinn.