Um KMÍ
Á döfinni

8.5.2017

Íslenskar heimildamyndir á ferð og flugi - Out of Thin Air heimsfrumsýnd og La Chana sýnd á Hot Docs

Out of Thin Air, bresk/íslensk heimildamynd undir leikstjórn Dylan Howitt, var heimsfrumsýnd á dögunum á Hot Docs heimildamyndahátíðinni í Toronto í Kanada. Hátíðin fór fram dagana 27. apríl til 7. maí. Um mikinn heiður er að ræða, enda er Hot Docs stærsta heimildamyndahátíð Norður Ameríku.

Kvikmyndin fjallar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið og eftirmála þess fyrir sakborningana og íslenskt samfélag í heild sinni. Myndinni var gífurlega vel tekið á Hot Docs hátíðinni og segir m.a. um myndina í veftímaritinu Toronto Film Scene „um er að ræða mynd fyrir þolinmóða áhorfendur sem vilja frekar snjallar glæpasögur heldur en ruddalegar og áberandi“.

La Chana, spænsk/íslensk/bandaríska heimildamyndin undir leikstjórn Luciju Stojevic, var einnig sýnd á Hot Docs. Myndin hefur verið á ferð og flugi undanfarið en hún var m.a. sýnd á DOK.fest München í Þýskalandi og Docaviv í Ísrael á dögunum ásamt því að verða sýnd á Beldocs hátíðinni sem fer fram í Belgrad, Sebíu um helgina. 

Toronto Film Scene fjallar einnig um La Chana á Hot Docs og segir „La Chana er ein af betri myndum hátíðarinnar sem höfðar til fjöldans ásamt því að vera erfið ferðasaga konu úr ofbeldisfullum aðstæðum. Myndin er ævisaga sem er bæði hvetjandi og mikilvæg“.

La Chana fjallar um sígauna flamenco dansarann Antonia Santiago Amador, þekkt sem La Chana, katalónska konu sem var ein stærsta stjarna flamenco heimsins á 7. og 8. áratug síðustu aldar. 

Framundan hjá Out of Thin Air og La Chana eru fleiri hátíðir og verða þær báðar sýndar á Sheffield Doc/Fest sem fer fram dagana 9. - 14. júní í Sheffield, Bretlandi.

Nánari upplýsingar um Out of Thin Air má finna á vef Kvikmyndamiðstöðvar og á síðu Mosaic Films

Nánari upplýsingar um La Chana má finna á facebook síðu myndarinnar og á kvikmyndavefnum