Um KMÍ
Á döfinni

11.9.2020

Ráðherrann tilnefnd til Prix Europa verðlaunanna

Sjónvarpsþáttaröðin Ráðherrann undir leikstjórn Nönnu Kristínar Magnúsdóttur og Arnórs Pálma Arnarssonar er tilnefnd til Prix Europa verðlaunanna fyrir besta leikna sjónvarpsefnið. 27 þáttaraðir eru tilnefndar að þessu sinni og fer verðlaunaafhendingin fram í október í Potsdam, Þýskalandi. Prix Europa verðlaunin eru ein þau stærstu sinnar tegundar í Evrópu og því um mikinn heiður að ræða.

Sýningar á Ráðherranum hefjast sunnudaginn 20. september á RÚV og fjallar þáttaröðin um Benedikt Ríkarðsson, óhefðbundinn stjórnmálamann sem kemur eins og stormsveipur inn í íslensk stjórnmál með óvenjulegri nálgun í kosningabaráttu flokks síns. Eftir að hann kemst til valda fara einkenni geðhvarfa að koma fram í fari hans og hegðun.

Ólafur Darri Ólafsson fer með hlutverk ráðherrans en með önnur stór hlutverk í þáttunum fara Aníta Briem, Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson.

Leikstjórar Ráðherrans eru eins og fyrr segir Nanna Kristín Magnúsdóttir og Arnór Pálmi Arnarson en handrit skrifuðu Birkir Blær Ingólfsson, Björg Magnúsdóttir og Jónas Margeir Ingólfsson. Framleiðendur eru Anna Vigdís Gísladóttir, Hilmar Sigurðsson og Kjartan Þór Þórðarson fyrir Sagafilm.