Um KMÍ
Á döfinni

30.1.2024

Rannsóknastyrkir til meistaranema

Rannsóknasetur skapandi greina (RSG) auglýsir rannsóknastyrki til meistaranema sem vinna lokaverkefni um atvinnulíf menningar og skapandi greina og þau fjölþættu og fjölbreyttu samfélags- og efnahagsáhrif sem þessi starfsemi leiðir af sér. Umsækjendur þurfa að stunda meistaranám við viðurkenndan háskóla, hvort sem er á Íslandi eða erlendis, og verkefnið þarf að fjalla um eða hafa tengingu við íslenskt samfélag.

Tvær milljónir króna eru til úthlutunar og áætlað að styðja 3-5 verkefni. Miðað er við að fyrir 60 ECTS eininga verkefni sé styrkupphæð 800 þúsund krónur og 400 þúsund krónur fyrir 30 ECTS einingar.

Umsóknir

Umsóknafrestur fyrir fyrstu úthlutun er 25. febrúar næstkomandi. Umsóknum skal skilað til Rannsóknaseturs skapandi greina með tölvupóstsendingu á rsg@bifrost.is. Í umsókn skal koma fram nafn umsækjenda, háskóli, námsleið, einingafjöldi meistaraverkefnis, vinnuheiti verkefnis, leiðbeinandi (ef það liggur fyrir), greinargóð lýsing á verkefninu, markmiðum þess og hvernig það tengist atvinnulífi menningar og skapandi greina. Með umsókninni skal fylgja ferilskrá, staðfesting á skólavist og yfirlit yfir námskeið og einkunnir umsækjanda. Umsóknum skal skila á íslensku eða ensku.

Rannsóknasetri skapandi greina er heimilt að kalla eftir nánari upplýsingum og gögnum frá umsækjendum eftir því sem þurfa þykir. Stjórn setursins er heimilt að hafna öllum umsóknum sem ekki tengjast atvinnulífi menningar og skapandi greina eða uppfylla að öðru leyti ekki þær kröfur sem gerðar eru til verkefna.

Mat á umsóknum

Stjórn Rannsóknaseturs skapandi greina metur umsóknir og tekur ákvörðum um styrkveitingu. Við mat á umsóknum er litið til eftirfarandi þátta:

  • Tengsl verkefnis við atvinnulíf menningar og skapandi greina og rannsóknaráherslur RSG.
  • Möguleikar á hagnýtingu.
  • Nýnæmi verkefnis.
  • Gæði umsóknar (skýr markmið, vönduð rannsóknaráætlun og hnitmiðaður texti).

Rannsóknasetur skapandi greina var stofnað árið 2023. Stofnaðilar eru Háskólinn á Bifröst, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Listaháskóli Íslands og Háskólinn á Hólum. Stjórn setursins skipa fulltrúar háskólanna fimm, auk fulltrúa frá Samtökum skapandi greina og menningar- og viðskiptaráðuneyti. RSG er umsýslað af Háskólanum á Bifröst.

Umsækjendur fá sendan tölvupóst þar sem greint er frá niðurstöðu úthlutunar. Frekari upplýsingar og ráðgjöf veitir Erla Rún Guðmundsdóttir, erlarun@bifrost.is.