Um KMÍ
Á döfinni

13.9.2019

Listhópar sem lyfta upp evrópskri kvikmyndagerð - umsóknarfrestur er 1. október

Listhópar úr öllum listgreinum geta sótt um að vera útnefndur Listhópur Reykjavíkur, en á næsta ári verður við valið á Listhópnum sérstaklega horft til viðfangsefna er tengjast áherslum Reykjavíkurborgar á evrópskar kvikmyndir í menningarstarfi sínu á árinu 2020 undir yfirskriftinni „Reykjavík, hin kvika borg“. Tilefnið er að Evrópsku kvikmyndaverðlaunin verða veitt í Hörpu í desember á næsta ári. Hópurinn sem fyrir valinu verður fær allt að 3 milljónum króna til ráðstöfunar til að útfæra hugmynd sína. Er þetta í fyrsta sinn sem Listhópur Reykjavíkur fær sérstakt þema til að vinna með.

Sótt er um að verða Listhópur Reykjavíkur með því að færa inn athugasemd þess efnis í hefðbundinni styrkumsókn um styrk úr borgarsjóði Reykjavíkur á sviði menningarmála á Rafrænni Reykjavík, en umsóknarfrestur er til hádegis hinn 1. október nk

Við mat á almennum umsóknum um styrki á sviði menningarmála vegna næsta árs verður einnig horft sérstaklega til verkefna sem tengjast evrópskum kvikmyndum. Sömuleiðis verður horft til verkefna sem endurspegla fjölbreytileika samfélagsins. Sérstakur faghópur fer yfir umsóknir og gerir tillögu til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar. Úthlutun til styrkja á sviði menningarmála úr borgarsjóði Reykjavíkurborgar verður formlega kynnt í byrjun árs 2020.

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin eru viðamikið samstarfsverkefni ríkis og borgar og er stefnt að því að samhliða hátíðinni verði haldnir fjölmargir hliðarviðburðir sem tengjast evrópskum kvikmyndum. Hátíðin er haldin annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu. Hátíðin hefur laðað til sín fjölmarga erlenda gesti, fagaðila sem tengjast kvikmyndaheiminum og vel á annað hundrað erlenda blaðamenn. Því má búast við að hátíðin í Reykjavík beini athygli að íslenskri kvikmyndagerð, listum og menningu.

Tilkynninguna má finna á vef Reykjavíkurborgar.