Um KMÍ
Á döfinni

22.9.2020

RIFF og Bransadagar fara fram dagana 24. september - 4. október

RIFF - Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík hefst fimmtudaginn 24. september næstkomandi með frumsýningu á heimildamyndinni Þriðji póllinn eftir Anní Ólafsdóttur og Andra Snæ Magnason. Hátíðinni lýkur þann 4. október með frumsýningu á heimildamyndinni Á móti straumnum eftir Óskar Pál Sveinsson. 

Í ár fer hátíðin fram í 17. skipti og líkt og hin fyrri ár verður fjöldinn allur af erlendum og íslenskum kvikmyndum sýndar í Bíó Paradís og Norræna húsinu. Jafnframt verður vegleg kvikmyndadagskrá á riff.is þar sem öllum landsmönnum býðst að horfa heima í stofu. Gestir njóta myndanna á vönduðu vefsvæði því sama og notað er á fjölda þekktra kvikmyndahátíða m.a. CPH PIX, Midnight Sun í Finnlandi, Galway Film Fleath og Locarno Film Festival í Sviss.

Hinn þekkti dagskrárstjóri Frédéric Boyer, sem er listrænn stjórnandi Tribeca kvik­myndahátíðarinnar í New York og Les Arcs Europe­an Film Festival, fer fyrir dagskrárnefnd RIFF í ár og ber ábyrgð á keppnisflokknum Vitrunum. Flokkurinn er tileinkaður nýjum leikstjórum sem skara fram úr m.a. fyrir að nota nýjar leiðir til miðlunar. 

Þá verður fjöldinn allur af íslenskum kvikmyndum, heimildamyndum og stuttmyndum sýndar á hátíðinni undir dagskrárliðunum Ísland í brennidepli, Ísland og EFA í gegnum tíðina og Íslenskar stuttmyndir

Bransadagar RIFF munu einnig fara fram meðfram hátíðinni, en það er vettvangur fyrir íslenskt og erlent kvikmyndagerðarfólk til að komast í tengingu við alþjóðlega kvikmyndaheiminn. Á meðal viðburða á bransadögum má nefna verk í vinnslu og pallborðsumræðurnar VOD á Íslandi og Kvikmyndagerð á Íslandi, ásamt RIFF Talks. 

Miðasala er hafin á heimasíðu RIFF og hér má nálgast dagskrárbækling RIFF í heild sinni.