Um KMÍ
Á döfinni

1.11.2019

Rúnar Rúnarsson hlaut leikstjórnarverðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Seminci í Valladolid á Spáni

Rúnar Rúnarsson, leikstjóri kvikmyndarinnar Bergmál, hlaut verðlaun fyrir bestu leikstjórn í aðalkeppni (Ribera del Duero) á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Seminci í Valladolid á Spáni, sem fór fram dagana 19. - 26. október. Þetta er í 64. sinn sem hátíðin er haldin og er hún ein stærsta kvikmyndahátíð á Spáni.

Spænskir gagnrýnendur hafa fjallað um myndina síðastliðna daga og gefið henni afar góða dóma, þeir segja meðal annars að hún sé húmanísk kvikmynd sem er listræn og djörf, þar sem fegurð, húmor og sorg tvinnast saman. Bergmál samanstendur af 58 ótengdum senum sem rýna í íslenskan samtíma í aðdraganda jóla.

Þetta eru ekki fyrstu verðlaunin sem myndin hlýtur en Bergmál var heimsfrumsýnd í haust í aðalkeppni alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Locarno í Sviss og hlaut þar aðalverðlaun dómnefndar unga fólksins.

Myndin Bergmál verður frumsýnd hér á landi þann 20. nóvember.