Um KMÍ
Á döfinni

14.1.2021

RVK Feminist Film Festival stendur yfir dagana 14. - 17. janúar - myndir aðgengilegar öllum á netinu

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RVK Feminist Film Festival (RVK FFF) verður haldin í annað sinn dagana 14.-17. janúar. Hátíðin verður á netinu sökum heimsfaraldursins en valdir viðburðir verða í boði innan sóttvarnatakmarkana. Hægt er að horfa á allar kvikmyndirnar ókeypis á heimasíðu hátíðarinnar þá daga sem hátíðin stendur yfir.

Á boðstólnum eru kvikmyndaverk eftir konur hvaðanæva að úr heiminum ásamt viðtölum, panelum og Q&A. Aðal áherslan í ár er á að tengjast Trans Ísland, Samtökunum ’78 og Intersex Ísland og þar með auka sýnileika LGBTQI+ samfélagsins á Íslandi og erlendis.

Heiðursverðlaunahafi hátíðarinnar í ár er Halla Kristín Einarsdóttir kvikmyndagerðarkona en hún hefur gert kvikmyndir á borð við Konur á rauðum sokkum og Hvað er svona merkilegt við það. Halla Kristín gerði fyrstu kvikmyndina um transgenderisma á Íslandi, Transplosive (2006) og verður hún sýnd á hátíðinni.

Á meðal þeirra viðburða sem í boði verða má m.a. nefna pallborðið No Woman Alone, Women's DOP's, Fabúlera Short Film Script Lab og pallborðsumræður um birtingarmynd LGTBQI+ samfélagsins í sjónvarpi og kvikmyndum.

Að auki kallast stuttmyndakeppni hátíðarinnar SYSTIR og verða verðlaunahafar kynntir á lokadegi hátíðarinnar 17. janúar. Veitt verða verðlaun í 4 flokkum: Besta tilraunakennda stuttmyndin, besta heimildamyndarstuttmyndin, besta frásagnarstuttmyndin og besta Covid-19 stuttmyndin.

Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu og Facebook síðu hátíðarinnar.