Um KMÍ
Á döfinni
  • TheLastAutumnHerdingJPG

15.4.2020

Síðasta haustið hluti af „The Changing Face of Europe“ á Hot Docs heimildamyndahátíðinni

Síðasta haustið eftir Yrsu Roca Fannberg hefur verið valin á „The Changing Face of Europe hluta Hot Docs heimildamyndahátíðarinnar í Toronto í Kanada.

European Film Promotion (EFP) stendur fyrir dagskránni „The Changing Face of Europe“ sem sýnir tíu evrópskar heimildamyndir valdar af skipuleggjundum hátíðarinnar. Hot Docs átti að fara fram dagana 30. apríl - 10. maí, en hefur verið frestað vegna Covid-19. Því verður hún að mestu leiti í stafrænu formi þetta árið. 

Síðasta haustið undir leikstjórn Yrsu Roca Fannberg var heimsfrumsýnd á hinni virtu kvikmyndahátíð Karlovy Vary síðasta sumar. Það húmar að hausti þar sem vegurinn endar að Krossnesi í Árneshreppi. Þar er sveitabær Úlfars og eiginkonu hans og fjölskyldan kemur til þeirra til að aðstoða við smölun. Barnabörnin koma úr borginni til að taka þátt en hjónin hafa ákveðið að bregða búi svo þetta er síðasta haustið sem þau smala. Hér er á ferðinni einstök innsýn inn í samband mannsins við náttúruna og dýrin. Í þessari heimildarmynd verðum við vitni að umbreytingu sem kallast á við söguna og alla bændurna sem standa í sömu sporum í fortíð og framtíð.

Framleiðandi myndarinnar er Hanna Björk Valsdóttir. Framleiðslufyrirtæki eru Akkeri Films og Biti aptan bæði. Stjórn kvikmyndatöku var í höndum Carlos Vásquez Méndez og Federico Delpero Bejar sá um klippingu. Hljóðhönnuður var Björn Viktorsson, auk þess sem tónlist er eftir Gyðu Valtýsdóttur. Myndin var tekin á 16mm filmu, haustið 2016 í Árneshreppi á Ströndum þegar fjórir bændur af átta hættu búskap. 

Hægt er að kaupa sérstakan stafrænan passa (e. All-Access Online Pass) til að nálgast myndirnar en dagsetningar á almennum sýningum hátíðarinnar verða tilkynntar síðar. Allar nánari upplýsingar um Hot Docs má finna á heimasíðu hátíðarinnar