Um KMÍ
Á döfinni
  • TheLastAutumnHerdingJPG

11.10.2019

Síðasta haustið valin til þátttöku á kvikmyndahátíðum í Lettlandi og Þýskalandi

Síðasta haustið, heimildamynd undir leikstjórn Yrsu Roca Fannberg, hefur verið valin til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðirnar Riga International Film festival í Lettlandi og Dok Leipzig í Þýskalandi, en hún var heimsfrumsýnd á hinni virtu kvikmyndahátíð Karlovy Vary í sumar.

Myndin var sýnd á RIFF (alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík) þar sem hún hlaut sérstaka viðurkenningu dómnefndar ásamt myndunum Corpus Christi og Maternal í flokknum Nýjar Vitranir. Síðasta haustið er nú í sýningum í Bíó Paradís. 

Um Síðasta haustið:

Þar sem vegurinn endar lengst norður á Ströndum stendur bærinn Krossnes. Þar hefur fjárbúskapur verið stundaður kynslóð fram af kynslóð í hundruðir ára. Úlfar bóndi er jafn mikill hluti af landslaginu eins og Krossnesfjallið sjálft. Þetta er síðasta haustið sem hann og Oddný kona hans smala fé sínu í réttir og þar með endar búskapur í Krossnesi á Ströndum. Enn eimir eftir af gamla Íslandi en síðustu bændurnir sem stunda búskaparhætti að gömlum sið munu brátt heyra sögunni til.

Leikstjóri er Yrsa Roca Fannberg og framleiðandi myndarinnar er Hanna Björk Valsdóttir. Framleiðslufyrirtæki eru Akkeri Films og Biti aptan bæði. Stjórn kvikmyndatöku var í höndum Carlos Vásquez Méndez og Federico Delpero Bejar sá um klippingu. Hljóðhönnuður var Björn Viktorsson, auk þess sem tónlist er eftir Gyðu Valtýsdóttur. Myndin er tekin á 16mm filmu, haustið 2016 í Árneshreppi á Ströndum þegar fjórir bændur af átta hættu búskap.