Um KMÍ
Á döfinni

15.9.2020

Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin í samstarfi við Bíó Paradís helgina 18.-20. september 2020

Bíó Paradís - heimili kvikmyndanna fagnar 10 ára afmæli og í tilefni þess mun kvikmyndahúsið opna dyr sínar á ný föstudaginn 18. september. Skjaldborg - Hátíð íslenskra heimildamynda mun hreiðra um sig í Bíó Paradís helgina 18. - 20. september, en hátíðin verður haldin í Reykjavík í fyrsta sinn. Tvisvar hefur þurft að aflýsa hátíðinni á Patreksfirði í sumar vegna kórónuveirunnar. 

Bíó Paradís hefur verið lokað um nokkurt skeið vegna Covid-19 og óvissu um leigu á húsnæði undir starfsemina. Í júlí á þessu ári var þeirri óvissu eytt með nýju samkomulagi við eigendur hússins og uppfærslum á samstarfssamningum við ríki og borg.

Skjaldborg er uppskeruhátíð heimildamyndahöfunda og sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi koma saman á hátíðinni í skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar.

Þrettán myndir verða frumsýndar á hátíðinni og sjö verk í vinnslu kynnt. Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er Hrafnhildur Gunnarsdóttir og verða sýndar þrjár myndir úr hennar höfundasafni auk þess sem Hafsteinn Gunnar Hafsteinsson mun leiða masterclass með Hrafnhildi.

Dagskrá hátíðarinnar má finna á heimasíðu Bíó Paradís.

119252394_3575857032478215_6539547697162762149_o

Stakir bíómiðar kosta 1.690 kr. og Skjaldborgarpassi sem gildir á allar sýningar hátíðarinnar kostar 8.900 kr.