Um KMÍ
Á döfinni

19.5.2021

Stockfish kvikmyndahátíðin hefst fimmtudaginn 20. maí

Stockfish Film Festival hefur göngu sína fimmtudaginn 20. maí í Bíó Paradís og stendur til 30. maí.  Íslenska heimildamyndin Apausalypse eftir Andra Snæ Magnason og Anní Ólafsdóttur verður frumsýnd á hátíðinni ásamt kvikmyndinni Little Kingdom sem er slavnesk/íslensk framleiðsla.

Opnunarmynd hátíðarinnar er The Last Ones eftir Veiko Öunpu sem hefur verið lýst sem Lapplands vestra. Myndin var framlag Eistlands til Óskars í ár. Sýndar verða í kringum 20 sérvaldar alþjóðlegar verðlaunakvikmyndir hvaðanæva að úr heiminum á hátíðinni og hafa aldrei verið fleiri myndir á hátíðinni sem annað hvort voru í undanvali eða tilnefndar til Óskarsverðlauna. Þar fyrir utan eru sérvaldar sýningar á myndum sem Stockfish frumsýnir. Í ár verður Stockfish með Nordisk Panorama Focus þar sem gestum gefst kostur á að sjá verðlaunamyndir frá Nordisk Panorama 2020.

Þá verða 12 íslenskar stuttmyndir sýndar á hátíðinni og munu þær keppa í stuttmyndakeppni Stockfish, Sprettfiski, þar sem markmiðið er að vekja athygli á ungu og upprennandi kvikmyndagerðarfólki.  

Að auki mun dótturhátíð Stockfish Festival, Hreyfimyndahátíð, taka þátt í hátíðarhöldunum með öðruvísi kvikmyndadagskrá. Physical Cinema er hugsað sem vettvangur fyrir stuttmyndir, heimildarmyndir og video listaverk. Valdar myndir geta talist til danslistar, myndlistar, hljóðlistar og kvikmyndalistar. Það eru engar reglur, einungis frjálst tjáningarform þar sem allt er leyfilegt. Helena Jónsdóttir danshöfundur og kvikmyndagerðakona stendur fyrir hátíðinni í samvinnu við Stockfish Festival. 

Stockfish Film Festival er bæði ætluð kvikmyndaunnendum sem vilja sjá alþjóðlegar verðlaunamyndir í bíó sem og fagfólki í kvikmyndabransanum. Hátíðin er haldin árlega í samvinnu við Bíó Paradís og öll fagfélög í kvikmyndagreinum á Íslandi. Með hátíðinni var Kvikmyndahátíð Reykjavíkur endurvakin undir nýju nafni en hún var síðast haldin árið 2001 og var upphaflega sett á laggirnar árið 1978.

Allar nánari upplýsingar um þær kvikmyndir sem verða sýndar, miðakaup, aðra viðburði og dagskrá er að finna á heimasíðu Stockfish hátíðarinnar.