Um KMÍ
Á döfinni

27.11.2017

Sumarbörn hlýtur góðar viðtökur í Tallinn

Sumarbörn, fyrsta kvikmynd Guðrúnar Ragnarsdóttur í fullri lengd var sýnd sem hluti af keppni fyrstu kvikmynda leikstjóra á Tallinn Black Nights kvikmyndahátíðinni í Eistlandi  þann 24. nóvember og hlaut góðar viðtökur áhorfenda. Viðstödd sýninguna voru Guðrún Ragnarsdóttir leikstjóri og handritshöfundur, aðalleikkonan Kristjana Thors og framleiðendur myndarinnar Anna María Karlsdóttir og Hrönn Kristinsdóttir. Þær tóku þátt í líflegum umræðum að lokinni sýningu.

Um var að ræða alþjóðafrumsýningu Sumarbarna. Myndin var frumsýnd hérlendis í október í Bíó Paradís og er í sýningu víðsvegar um landið. Myndin hefur hlotið góða dóma, meðal annars hjá Screen International, Morgunblaðinu og Lestinni á Rás 1.

Sumarbörn segir frá systkinunum Eydísi og Kára, sem eru send til sumardvalar á afskekkt barnaheimili vegna heimiliserfiðleika og fátæktar. Börnin trúa því statt og stöðugt að dvölin verði stutt, en biðin veldur þeim síendurteknum vonbrigðum. Dagarnir líða, en Eydís með sinn sterka lífsvilja og lífsgleði yfirstígur hverja hindrunina eftir aðra með ráðsnilld og dugnaði og umhyggju fyrir Kára bróður sínum.

Myndin er framleidd af Önnu Maríu Karlsdóttur og Hrönn Kristinsdóttur fyrir Ljósband og meðframleidd af Egil Ødegård fyrir norska framleiðslufyrirtækið Filmhuset Fiction.