Um KMÍ
Á döfinni
  • Ploey

8.5.2018

Sumarbörn, Víti í Vestmannaeyjum og Lói valdar á Zlín kvikmyndahátíðina

Þrjár íslenskar kvikmyndir hafa verið valdar til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Zlín, sem er sérstaklega fyrir börn og unglinga. Myndirnar þrjár eru: Sumarbörn, sem mun taka þátt í keppni evrópskra fyrstu mynda; Víti í Vestmannaeyjum, sem mun taka þátt í alþjóðlegri keppni barnamynda og Lói – þú flýgur aldrei einn, sem mun taka þátt í Panorama hluta hátíðarinnar. Hátíðin fer fram frá 25. maí til 2. júní.

Sumarbörn

Sumarbörn segir frá systkinunum Eydísi og Kára, sem eru send til sumardvalar á afskekkt barnaheimili vegna heimiliserfiðleika og fátæktar. Börnin trúa því statt og stöðugt að dvölin verði stutt, en biðin veldur þeim síendurteknum vonbrigðum. Dagarnir líða, en Eydís með sinn sterka lífsvilja og lífsgleði yfirstígur hverja hindrunina eftir aðra með ráðsnilld og dugnaði og umhyggju fyrir Kára bróður sínum.

Myndin var frumsýnd erlendis á hinni virtu Tallinn Black Nights kvikmyndahátíð í Eistlandi í nóvember síðastliðnum og vann INIS verðlaunin á FIFEM – alþjóðlegu barnakvikmyndahátíðinni í Montreal í Kanada í mars á þessu ári.

Víti í Vestmannaeyjum

Víti í Vestmannaeyjum segir frá Jóni Jónssyni, 10 ára, sem fer með liði sínu Fálkunum til að keppa á fótboltamóti í Vestmanneyjum. Þegar Jón kynnist Ívari, strák úr ÍBV sem þarf að þola ofbeldi heimafyrir, þarf hann að vaxa hraðar úr grasi en hann nokkru sinni óraði fyrir, innan vallar sem utan.

Myndin var frumsýnd hérlendis þann 23. mars síðastliðinn og hafa rúmlega 32.000 manns séð hana í kvikmyndahúsum, þar sem hún er enn í sýningum.

Lói – þú flýgur aldrei einn

Lói – þú flýgur aldrei einn segir frá Lóa, sem er ófleygur þegar haustið kemur og farfuglarnir fljúga suður á bóginn. Hann þarf að lifa af harðan veturinn og kljást við grimma óvini til að eiga möguleika á að sameinast aftur ástvinum sínum að vori.

Lói hlaut nýverið aðalverðlaun alþjóðlegu barnamyndahátíðarinnar í Kristiansand í Noregi og tók stuttu eftir það þátt á alþjóðlegu teiknimyndahátíðinni í Stuttgart í Þýskalandi.

Myndin var frumsýnd hérlendis þann 2. febrúar síðastliðinn og hafa rúmlega 23.000 manns séð hana í kvikmyndahúsum, þar sem hún er enn í sýningum.