Um KMÍ
Á döfinni

21.12.2020

Systrabönd tilnefnd til handritaverðlauna Norðurlandanna

Sjónvarpsþáttaröðin Systrabönd er tilnefnd til verðlauna fyrir besta handrit dramasjónvarpsþáttaraða á Norðurlöndunum sem Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn (Nordisk Film & TV Fond) stendur fyrir. Verðlaunin verða afhent á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg þann 3. febrúar 2021.

Jóhann Ævar Grímsson á hugmyndina að þáttaröðinni en auk hans skrifuðu handritin Björg Magnúsdóttir, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og Silja Hauksdóttir, en Silja er jafnframt leikstjóri þáttanna.

Þáttaröðin er framleidd af Sagafilm fyrir Sjónvarp Símans og Viaplay á Norðurlöndum í samstarfi við Sky Studios á Bretlandi. Gautaborgarhátíðin er stærsta kvikmyndahátíðin á Norðurlöndum og stendur frá 29. janúar til 8. febrúar 2021.

Þá er norska þáttaröðin Velkommen til Utmark sem Dagur Kári leikstýrir einnig tilnefnd til verðlaunanna, ásamt dönsku þáttaröðinni Ulven kommer, sænsku seríunni Thin Blue Line og finnsku þáttaröðinni Cargo.

Það er afskaplega ánægjulegt að fá þessa tilnefningu nú þegar verið er að taka lokaskrefin í framleiðslunni. Vandað hefur verið til verka á hverju stigi og við hlökkum til að sjá viðbrögð áhorfenda við þáttunum þegar þeir verða teknir til sýningar næstu páska.“ segir Tinna Proppé framleiðandi þáttanna hjá Sagafilm.

Systrabönd verða sýnd í Sjónvarpi Símans Premium um páskana á næsta ári og fara þættirnir í kjölfarið í sýningar á Norðurlöndunum og í alheimsdreifingu á vegum NBC Universal Global Distribution. Framleiðendur þáttanna eru Tinna Proppé, Hilmar Sigurðsson og Kjartan Þór Þórðarson og eru þættirnir framleiddir með styrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, Media Creative Europe og nýtur framleiðslan 25% endurgreiðslu úr ríkissjóði af framleiðslukostnaði.

Hér má lesa nánar um tilnefninguna og verðlaunin.