Um KMÍ
Á döfinni

14.7.2020

Þjóðsaga eftir Guðna Líndal Benediktsson og Ævar Þór Benediktsson valin á Cinekid Script LAB

Þjóðsaga hefur verið valin á Cinekid Script LAB handritavinnustofunaÞjóðsaga er ævintýramynd í þróun sem er byggð á metsölubókinni Þín eigin þjóðsaga eftir Ævar Þór Benediktsson. Handritshöfundar eru þeir Guðni Líndal Benediktsson og Ævar Þór Benediktsson og munu þeir báðir taka þátt í vinnustofunni. 

Cinekid Script LAB eru sex mánaða þjálfunarbúðir í handritsskrifum á kvikmyndaverkefni fyrir börn. Cinekid stendur árlega fyrir Cinekid kvikmyndahátíðinni og Cinekid for Professionals ráðstefnunni, sem fara báðar fram í Amsterdam í október, með það fyrir augum að efla framleiðslu og aðgengi að hágæða barnaefni. 

Alls voru 14 verkefni valin á vinnustofuna sem fer fram í Amsterdam í október og einnig í Berlín þegar Berlinale kvikmyndahátíðin fer fram í febrúar. Þátttakendum býðst aðstoð og ráðgjöf fagfólks ásamt því að kynna verkefni sín fyrir sölufulltrúum, dreifingaraðilum, innkaupastjórum og framleiðendum.

Framleiðsla myndarinnar verður í höndum framleiðslufyrirtækisins Zik Zak.