Um KMÍ
Á döfinni

31.8.2020

Þriðji Póllinn eftir Andra Snæ Magnason og Anní Ólafsdóttur er opnunarmynd RIFF

Opnunarmynd RIFF Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík í ár er Þriðji Póllinn ný íslensk kvikmynd eftir Andra Snæ Magnason og Anní Ólafsdóttur.

Kvikmyndin verður frumsýnd þann 24. september næstkomandi þegar hátiðin verður sett í 17. sinn.

Þriðji Póllinn er áhrifarík heimildarmynd um geðhvörf sem fylgir eftir ferðalagi þeirra Högna Egilssyni, tónlistarmanni og Önnu Töru Edwards, um framandi slóðir í Nepal. Þriðji Póllinn er ekki hefðbundin fræðslumynd heldur veitir hún innsýn í hugsun og veruleika tveggja einstaklinga sem hafa glímt við sama sjúkdóm. Þetta er ferðasaga, mynd um óvænta vináttu og hreinskilin og opin umræða um hvað það þýðir að vera með geðsjúkdóm og að vera aðstandandi.

Anna Tara er íslensk kona sem ólst upp í frumskógum Nepals innan um tígrisdýr og nashyrninga. Hún veiktist af geðhvörfum upp úr tvítugu og missti móður sína úr sama sjúkdómi. Þegar Högni steig fram með sín veikindi ákvað Anna Tara að feta sömu leið, eftir að hafa lifað í skugga veikindanna um árabil, og skora skömmina á hólm. Hún ákvað þá að efna til tónleika til vitundarvakningar um geðsjúkdóma í Kathmandu, höfuðborg Nepals og fékk Högna til að spila á tónleikunum. Fyrir ágóðann var síðan opnuð hjálparlína fyrir fólk í sjálfsvígshugleiðingum í Nepal.

Á RIFF í ár verður sýnt úrval mynda i Bíó Paradís og Norræna húsinu en jafnframt verður vegleg kvikmyndadagskrá á riff.is þar sem öllum landsmönnum býðst að horfa. Gestir njóta myndanna á vönduðu vefsvæði því sama og notað er á fjölda þekktra kvikmyndahátíða m.a. CPH PIX, Midnight Sun í Finnlandi, Galway Film Fleath og Locarno Film Festival í Sviss.

RIFF verður með veglega dagskrá þá 11 daga sem hátíðin stendur yfir en mun jafnframt standa fyrir kvikmyndasýningum í október og nóvember. Þær sýningar eru hugsaðar sem brú yfir til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna EFA sem til stendur að veita hér á landi í desember. Miðasala verður kynnt á næstu dögum.