Um KMÍ
Á döfinni

18.3.2021

Þriðji póllinn valin til keppni á CPH:DOX

Heimildamyndin Þriðji póllinn eftir Andra Snæ Magnason og Anní Ólafsdóttur hefur verið valin til þátttöku í NORDIC:DOX keppni alþjóðlegu heimildamyndahátíðarinnar CPH:DOX. Hátíðin, sem er ein af stærstu heimildamyndahátíðum í heimi, fer fram dagana 21. apríl - 2. maí.

Leikstjórar Þriðja pólsins eru Andri Snær Magnason og Anní Ólafsdóttir og eru þau jafnframt handritshöfundar. Þriðji póllinn er ljóðræn heimildamynd með söngvum sem fjallar um ferðalag Högna Egilssonar til Nepal, þar sem við hittum fílaprinsessuna Önnu Töru Edwards sem hefur efnt til vitundarvakningar um geðheilsu í Kathmandhu. Myndin kannar mörk draums og veruleika, listar og vitfirringar.

Þriðji póllinn

Framleiðendur myndarinnar eru Andri Snær Magnason, Sigurður Gísli Pálmason, Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir og Hlín Jóhannesdóttir og meðframleiðendur eru Högni Egilsson, Anna Tara Edwards, Anni Ólafsdóttir og Eva Lind Höskuldsdóttir.

Allar nánari upplýsingar um CPH:DOX má finna á heimasíðu hátíðarinnar.