Um KMÍ
Á döfinni
  • TinnaHrafns-pitch

20.5.2016

Tinna Hrafnsdóttir vann The Pitch keppnina

Leikstjórinn, handritshöfundurinn og framleiðandinn Tinna Hrafnsdóttir sigraði á dögunum The Pitch, keppni fyrir hugmyndakynningar á stuttmyndum. Þar kynnti Tinna nýjasta verkefni sitt er ber nafnið Kaþarsis og hlaut að launum 5000 evru peningaverðlaun, sem munu hjálpa henni við frekari þróun verkefnisins.

The Pitch keppnin er haldin á vegum ShortsTV og Short Film Corner sölu- og kynningarmarkaðarins sem fer fram samhliða Cannes kvikmyndahátíðinni.

Kaþarsis fjallar um smábæjarprestinn Guðmundu, sem hefur allt frá því að hún dansaði vangadans á unglingsaldri við pilt í sókninni, elskað hann í laumi. Hún óttast þó að gera eitthvað í málinu, þar til hún rekst loks á hann á karókí-bar og dansar við sama lagið.

Tinna Hrafnsdóttir mun leikstýra og framleiða myndina ásamt Lindu Vilhjálmsdóttur og Dögg Mósesdóttur fyrir framleiðslufyrirtækið Freyja Filmwork. Bergþóra Snæbjörnsdóttir skrifar handrit myndarinnar.

Eva Sigurðardóttir komst einnig í úrslit keppninnar í ár með kynningu á bresk/íslensku stuttmyndinni Rape Card og hlaut sú kynning sérstaka viðurkenningu, sem gerir aðstandendum myndarinnar kleift að fara í viðræður við ShortsTV um mögulega styrkveitingu frá þeirra hendi.

Þetta er þriðja árið í röð sem íslensk kvikmyndagerðarkona sigrar The Pitch keppnina. Árið 2014 vann Eva Sigurðardóttir fyrir Regnbogapartý og árið 2015 vann Anna Sæunn Ólafsdóttir fyrir Frelsun.