Um KMÍ
Á döfinni

19.7.2019

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir er tilnefnd til Emmy-verðlauna fyrir tónlist sína í Chernobyl sjónvarpsþáttunum

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir var á dögunum tilnefnd til Emmy-verðlauna fyrir tónlist sína í stuttseríunni Chernobyl, en verðlaunin eru í flokki framúrskarandi frumsaminnar tónlistar. 

Þættirnir voru frumsýndir á HBO-sjónvarpstöðinni í vor og fjölluðu um slysið sem varð í kjarnorkuverinu í Tsjernobyl í Úkraínu árið 1986. 

Tónlist þáttanna er sögð bæði ómstríð, drungaleg og ægifögur og hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda og almennings. Hildur segir að hvert einasta hljóð í tónlistinni komi úr kjarnorkuverinu og leitaði hún þá í kjarnorkuverið í Litháen þar sem þættirnir voru teknir upp fyrir innblástur og upptökur fyrir tónlist sína. 

Hildi var nýverið boðið sæti í bandarísku kvikmyndaakademíunni auk þess sem hún hefur samið tónlist við kvikmyndir eins og Sicario: Day of the Soldat sem kom út árið 2018 og Tom of Finland frá árinu 2017. Þá vann Hildur Edduverðlaunin árið 2017 fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Eiðurinn eftir Baltasar Kormák og árið 2016 hlaut hún, ásamt þeim Jóhanni Jóhannsyni heitnum og Rutger Hoedemækers, Edduverðlaunin fyrir tónlistina í sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð.