Um KMÍ
Á döfinni

21.8.2018

Undir trénu og Kona fer í stríð í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin

Undir trénu eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson og Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson eru á meðal 49 mynda sem eru í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin.  Endanlegar tilnefningar til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna verða tilkynntar þann 10. nóvember á evrópsku kvikmyndahátíðinni í Sevilla á Spáni. Verðlaunaafhendingin fer sömuleiðis fram í Sevilla, þann 15. desember.

Undir trénu var heimsfrumsýnd á hinni virtu kvikmyndahátíð í Feneyjum í ágúst 2017. Í kjölfarið hefur myndin tekið þátt á fjölda stórra kvikmyndahátíða, þar á meðal alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto, kvikmyndahátíðinni í Zürich, alþjóðlegu kvikmyndahátíðnni í Chicago og kvikmyndahátíðinni í Hamptons. Myndin hefur unnið til sjö alþjóðlegra verðlauna, þar á meðal í Zürich og í Hamptons. Á þessu ári var Undir trénu einnig framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna og vann til sjö Edduverðlauna. Þá var myndin sú næst aðsóknarhæsta hérlendis á síðasta ári með rúmlega 42.000 gesti í kvikmyndahúsum.

Kona fer í stríð var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, í maí síðastliðnum og vann þar til samtals fjögurra verðlauna, þar á meðal SACD verðlaunanna fyrir besta handrit. Myndin hefur síðan þá tekið þátt á kvikmyndahátíðinni í Sydney, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni La Rochelle í Frakklandi og alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Melbourne. Kona fer í stríð er ennþá í sýningu hérlendis og hafa tæplega 17.000 manns séð hana í kvikmyndahúsum.