Um KMÍ
Á döfinni

26.2.2018

Verbúð vann Séries Mania verðlaunin í Berlín

Verbúð, leikin þáttaröð sem nú er í þróun, vann Séries Mania verðlaunin á Berlinale CoPro Series kynningarvettvangi samframleiðslumarkaðs alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Berlín. Sigurinn þýðir að verkefnið mun taka þátt í samframleiðslumessu Séries Mania sjónvarpsþáttahátíðarinnar sem fer fram í Lille í Frakklandi frá 27. apríl til 5. maí.

Verbúð fjallar á dramatískan hátt um afleiðingar kvótakerfis fyrir lítið þorp.

Laurence Herszberg, stofnandi Séries Mania, sagði um ástæðu valsins: „Þetta er mjög sterk staðbundin saga, virkilega bundin við þetta litla þorp. Þáttaröðin býr yfir sterkum persónum, maður finnur fyrir dramatískri spennu og hún er mjög vel skrifuð. Ég tel að þáttaröðin hafi alla burði til að vekja áhuga hjá áhorfendum um allan heim.“

Verbúð verður leikstýrt af Birni Hlyni Haraldssyni og Gísla Erni Garðarssyni, handritið skrifar Mikael Torfason og Nana Alfreðsdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Nína Dögg Filippusdóttir og Björn Hlynur Haraldsson framleiða fyrir Vesturport.

Áætlað er að tökur hefjist í janúar 2019.