Um KMÍ
Á döfinni

13.3.2020

Hætt við Verðlaunahátíð ungra áhorfenda sem halda átti 26. apríl 2020

Uppfærð frétt.

Í ljósi aðstæðna og COVID-19 heimsfaraldursins hefur Evrópska kvikmyndaakademían ákveðið að hætta við Verðlaunahátíð ungra áhorfenda. Það er verið að athuga hvort hægt verði að halda viðburðinn með stafrænum hætti og frekari upplýsingar að vænta síðar. 

-----------------------------

Evrópska kvikmyndaakademían og Kvikmyndamiðstöð Íslands bjóða öllum börnum á aldrinum 12 – 14 ára að taka þátt í kvikmyndahátíð sem meðlimir í dómnefnd.

Hátíðin nefnist Verðlaun ungra áhorfenda (e. Young Audience Award) og er haldin samtímis víðsvegar um Evrópu í 40 löndum þann 26. apríl næstkomandi. Hátíðin fer fram í þriðja sinn hér á landi í Bíó Paradís og henni lýkur með verðlaunaafhendingu sem er sýnd í beinni útsendingu.

Þrjár evrópskar myndir verða sýndar og velja krakkarnir bestu myndina með stigagjöf sem er sýnd á hátíðinni og minnir á fyrirkomulag Evrópsku söngvakeppninnar. Myndirnar þrjár sem verða sýndar á Verðlaunahátíð ungra áhorfenda voru valdar af dómnefnd sem skipuð var fimm krökkum á aldrinum 12 – 14 ára og tók ein íslensk stúlka í forvalinu.

Markmið hátíðarinnar er að bjóða upp á einstakt tækifæri fyrir börn til þess að kynnast evrópskri kvikmyndamenningu og að sýna myndir sem endurspegla raunveruleika ungmenna um alla Evrópu. Eins er stefnt að því að kveikja áhuga barnanna á evrópskum sögum, fólki, menningu og hvetja til samkenndar, skilnings og umburðarlyndis.

Hátíðin er fyrir alla krakka á aldrinum 12 – 14 ára og er aðgangur ókeypis. Til að skrá sig getur forráðamaður eða foreldri barns sent póst á umsoknir@kvikmyndamidstod.is 

Tengiliður hátíðarinnar er Svava Lóa Stefánsdóttir verkefnastjóri hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Myndirnar sem verða sýndar þann 26. apríl:

Rocca-minRocca Changes the World eftir leikstjórann Katja Benrath og fjallar um stelpuna Rocca sem er með eindæmum bjartsýn og þrátt fyrir ungan aldur sýnir hún fram á það að hún ásamt vinum geta þau breytt heiminum. Rocca er hugrökk, fyndin og sérstæð. Hún er 11 ára gömul og líf hennar má segja er mjög einstakt.

My-Brother-Chases-Dinosaurs-minMy Brother Chases Dinosaurs eftir leikstjórann Stefano Cipani fjallar um Jack sem á bróður með Downs-heilkenni. Foreldrar Jack töldu honum alltaf trú um að bróðir hans Gio væri gæddur sérstökum ofurhetjukröftum. Álagið að eiga óútreiknanlegan yngri bróður reynir á þegar Jack gengur í nýjan skóla og kynnist nýjum vinum og ástinni í lífi sinni Adrianna. Hann fer að skammast sín og fela það fyrir krökkunum að hann eigi yngri bróður. Jack lærir þó fljótt að það er hægt að þykjast vera einhver annar en maður er og á Gio bróðir hans stóran hlut í því að kynna honum fyrir þeirri lífsreglu.

My-Extraordinary-summer-with-Tess-minMy Extraordinary summer with Tess eftir leikstjórann Steven Wouterlood fjallar um strákinn Sam sem er hræddur við að vera einn og er yngstur í sinni fjölskyldu. Í sumarfríi fjölskyldunnar á hollensku eyjunni Terschelling ákveður Sam að byrja æfa sig að vera einn. Allt breytist þó þegar Sam hittir hina óræðu Tess sem á sér stórt leyndarmál, hann dregst inn í ævintýri sem eiga eftir að gera honum ljóst að honum þyki vænt um fjölskyldu sína og ætti ekki að flýja hana. Sam tekur síðan róttæka ákvörðun sem setur vinskapinn við Tess í hættu og breytir lífi hans að eilífu.

Logos