Um KMÍ
Á döfinni

12.7.2017

Vetrarbræður heimsfrumsýnd á Locarno hátíðinni

Dansk/íslenska kvikmyndin Vetrarbræður eftir Hlyn Pálmason verður heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni Locarno sem fer fram í Sviss í byrjun ágúst. Kvikmyndin er fyrsta mynd leikstjórans í fullri lengd og skrifaði hann einnig handritið að myndinni. Kvikmyndin keppir í aðalkeppni hátíðarinnar sem nefnist Concorso internacionale þar sem keppt er til Golden Leopard verðlaunanna. 

Hátíðin er ein sú stærsta sinnar tegundar og fer hún nú fram í 70. skipti. Alls eru 18 myndir valdar til aðalkeppninnar og er Vetrarbræður eina skandinavíska myndin sem var valin í ár. 

Vetrarbræður gerist í einangraðri verkamannabyggð á köldum vetri. Myndin segir frá bræðrunum Emil og Johan og hvernig þeirra daglega rútína er einn dag brotin upp með ofbeldisfullum deilum milli þeirra og annarrar fjölskyldu á vinnustaðnum. Sagan er um skort af ást sem fókusar á yngri bróðurinn, Emil, og þörf hans fyrir að vera elskaður og þráður. 

Hlynur útskrifaðist úr Danska Kvikmyndaskólanum 2013. Útskriftarmynd hans Málarinn með Ingvar E. Sigurðssyni í aðalhlutverki var tilnefnd til Dönsku Kvikmyndaverðlaunanna og vann verðlaun fyrir Bestu Stuttmynd á bæði kvikmyndahátíðinni í Odense og RIFF hátíðinni í Reykjavík. Nýjasta stuttmynd hans Sjö bátar  var heimsfrumsýnd í keppnisflokki Toronto kvikmyndahátíðarinnar og var tilnefnd sem stuttmynd ársins á Edduverðlaununum 2015.

Myndin er framleidd af danska framleiðslufyrirtækinu Masterplan Pictures og er Anton Máni Svansson meðframleiðandi fyrir hönd Join Motion Pictures.