Um KMÍ
Á döfinni

23.1.2018

Vetrarbræður hlýtur 15 tilnefningar til Robert verðlaunanna og þrjár til Bodil verðlaunanna

Vetrarbræður, hin dansk/íslenska fyrsta kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd, hlaut nýlega 15 tilnefningar til Robert verðlaunanna, verðlaunaafhendingu Dönsku kvikmyndaakademíunnar, þar á meðal fyrir bestu mynd, bestu leikstjórn, besta handrit og besta leikara í aðalhlutverki. Einnig hlaut hún þrjár tilnefningar til Bodil verðlaunanna, verðlaunaafhendingu Danskra kvikmyndagagnrýnenda, þar á meðal fyrir bestu mynd og besta leikara í aðalhlutverki.

Robert verðlaunaafhendingin mun fara fram þann 4. febrúar næstkomandi og Bodil verðlaunaafhendingin mun fara fram þann 17. mars næstkomandi.

Myndin hefur fengið frábærar viðtökur danskra gagnrýnenda og var m.a. valin besta mynd ársins hjá kvikmyndatímaritinu Ekko og var í öðru sæti yfir bestu myndir ársins hjá Politiken dagblaðinu.

Vetrarbræður hefur unnið til 13 alþjóðlegra verðlauna síðan hún var heimsfrumsýnd á hinni virtu Locarno kvikmyndahátíð í Sviss í ágúst síðastliðnum, þar sem fjögur verðlaunanna unnust.