Um KMÍ
Á döfinni

14.9.2017

Vetrarbræður valin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Busan

Vetrarbræður, hin dansk/íslenska fyrsta kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd, hefur verið valin til þátttöku á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Busan í Suður Kóreu. Um er að ræða Asíufrumsýningu myndarinnar. Hátíðin, sem er ein sú stærsta í Asíu, fer fram frá 12. – 21. október.

Vetrarbræður  var heimsfrumsýnd á Locarno kvikmyndahátíðinni í byrjun ágúst og vann þar til fjögurra verðlauna. Einnig vann hún sérstök dómnefndarverðlaun FIPRESCI samtakanna á New Horizons kvikmyndahátíðinni í Wroclaw í Póllandi. Nýverið var hún sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto og hefur einnig verið valin til þátttöku á BFI kvikmyndahátíðinni í Lundúnum.

Vetrarbræður gerist í einangraðri verkamannabyggð á köldum vetri. Myndin segir frá bræðrunum Emil og Johan og hvernig þeirra daglega rútína er dag einn brotin upp með ofbeldisfullum deilum milli þeirra og annarrar fjölskyldu á vinnustaðnum. Sagan er um skort af ást með áherslu á yngri bróðurinn, Emil, og þörf hans fyrir að vera elskaður og þráður. 

Hlynur Pálmason leikstýrir og skrifar handritið að Vetrarbræðrum. Myndin er framleidd af danska framleiðslufyrirtækinu Masterplan Pictures og er Anton Máni Svansson meðframleiðandi fyrir hönd Join Motion Pictures.

Með sölu og dreifingu erlendis fer fyrirtækið New Europe Film Sales (jan@neweuropefilmsales.com).