Um KMÍ
Á döfinni

11.10.2017

Vetrarbræður vann aðalverðlaun CPH PIX

Vetrarbræður, kvikmynd Hlyns Pálmasonar, vann New Talent Grand PIX, aðalverðlaun CPH PIX hátíðarinnar sem fór fram í Kaupmannahöfn og lauk um síðustu helgi. Þetta eru sjöttu alþjóðlegu verðlaunin sem myndinni hlotnast síðan hún var heimsfrumsýnd á hinni virtu Locarno kvikmyndahátíð í Sviss í ágúst, þar sem fjögur verðlaunanna unnust.

Dómnefndin hafði þetta að segja um ástæðu valsins: „Það gleður okkur ósegjanlega að veita New Talent Grand PIX verðlaunin kvikmyndagerðarmanni sem fangaði skilningarvit okkar fullkomlega með miklu sjálfsöryggi og hugrekki í notkun sinni á hljóð og mynd. Við vorum stórhrifin af öllum þeim ákvörðunum sem hann tók, hvort sem það var leikaraval, búningar, litir eða leikmyndahönnun. Við bíðum spennt eftir eftir hans næsta verki. New Talent Grand Pix fer til Hlyns Pálmasonar fyrir Vetrarbræður.“

Vetrarbræður var opnunarmynd RIFF hátíðarinnar sem lauk sömuleiðis um síðustu helgi. Myndin er nú í almennum sýningum í Bíó Paradís og Háskólabíói.

Vetrarbræður, sem er dönsk/íslensk framleiðsla, er leikstýrt af Hlyni Pálmasyni og skrifar hann einnig handritið. Myndin er framleidd af danska framleiðslufyrirtækinu Masterplan Pictures og er Anton Máni Svansson meðframleiðandi fyrir hönd Join Motion Pictures.

Vetrarbræður gerist í einangraðri verkamannabyggð á köldum vetri. Myndin segir frá bræðrunum Emil og Johan og hvernig þeirra daglega rútína er dag einn brotin upp með ofbeldisfullum deilum milli þeirra og annarrar fjölskyldu á vinnustaðnum. Sagan er um skort af ást með áherslu á yngri bróðurinn, Emil, og þörf hans fyrir að vera elskaður og þráður.