Um KMÍ
Á döfinni

21.12.2023

Volaða land í forvali til Óskarsverðlauna 2024

Framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2024, Volaða land eftir Hlyn Pálmason, er á meðal 15 kvikmynda í forvali akademíunnar í flokki alþjóðlegra kvikmynda. Kvikmyndir frá 88 löndum og landsvæðum voru lagðar fram til verðlaunanna. Tilkynnt verður um hvaða myndir verða tilnefndar 23. janúar 2024. 

Volaða land var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2022, þar sem hún keppti um Un Certain Regard-verðlaun hátíðarinnar. Hún hefur síðan verið sýnd á mörgum af virtustu kvikmyndahátíðum heims og hlotið fjölda verðlauna og tilnefninga. 

https://www.youtube.com/watch?v=2ADH76zWPkY

Myndin er stórbrotin saga af baráttu manns við náttúruna, trúna og sitt dýrslega eðli. Undir lok 19. aldar ferðast ungur danskur prestur til Íslands í þeim tilgangi að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu og eigin siðgæði.

Hún er framleidd af Antoni Mána Svanssyni fyrir Join Motion Pictures og Katrin Pors, Eva Jakobsen og Mikkel Jersin fyrir Snowglobe í Danmörku. Dreifingaraðili myndarinnar í Bandaríkjunum er Janus Films. New Europe Film sales fer með sölu myndarinnar í Evrópu.