Um KMÍ
Á döfinni

6.12.2023

Volaða land tilnefnd til Film Independent Spirit Awards

Kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Volaða land, er tilnefnd til Film Independent Spirit Awards. Tilkynnt var um tilnefningarnar 5. desember en þetta er í 39. sinn sem verðlaunahátíðin fer fram.

Volaða land er á meðal fimm kvikmynda sem tilnefndar eru í flokki erlendra kvikmynda. Aðrar myndir sem hljóta tilnefningu eru Anatomy of a Fall í leikstjórn Justine Triet, Mami Wata í leikstjórn C.J. ‘Fiery' Obasi, Tótem í leikstjórn Lilu Avilés, og The Zone of Interest í leikstjórn Jonathans Glazer.

Verðlaunahátíðin fer fram 25. febrúar 2024 og verður streymt í beinni á vef IMDb og á Youtube-rás Film Independent Spirit Awards.

Á árslistum virtra miðla og tímarita

Nú undir lok árs birta vefmiðlar og tímarit lista yfir þær kvikmyndir sem báru hæst á árinu og hefur Volaða land ratað á þónokkra. 

Nefna má árslista Hollywood Reporter, Indiewire og New York Times, þar sem myndin er í 8. sæti yfir bestu myndir ársins. Einnig hefur hún ratað á lista Indiewire yfir bestu kvikmyndatöku ársins, þar sem Hlynur Pálmason og Maria von Hausswolf kvikmyndatökukona eru lofuð.

Þá ber að geta að myndin hefur verið valin til þátttöku á Palm Springs kvikmyndahátíðinni í flokki bestu erlendu kvikmynda. Hátíðin fer fram 4.-15. janúar 2024.