Um KMÍ
Á döfinni
  • AgnesCho

4.9.2019

Agnes Joy og Hvítur, hvítur dagur valdar til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Busan – Agnes Joy heimsfrumsýnd

Kvikmyndirnar Agnes Joy eftir Silju Hauksdóttur og Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason verða sýndar á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Busan í Suður Kóreu sem fer fram dagana 3. – 12. október. Báðar myndirnar munu taka þátt í World Cinema hluta hátíðarinnar. 

AgnesCho

Agnes Joy verður heimsfrumsýnd á hátíðinni en myndin verður frumsýnd hérlendis þann 17. október.

Myndin fjallar um mæðgurnar Rannveigu og Agnesi sem búa á Akranesi ásamt föður Agnesar, Einari. Rannveig er í tilvistarkreppu, óánægð í starfi sínu fyrir fjölskyldufyrirtækið og hjónabandið komið á algera endastöð. Samband fjölskyldunnar einkennist af stjórnsemi og spennu og Agnes er í uppreisn. Þegar leikarinn Hreinn, flytur í bæinn til þess að vinna að kvikmyndahandriti, heillast þau öll af honum, hver á sinn hátt og þroskasaga mæðgnanna hefst fyrir alvöru.

Silja Hauksdóttir leikstýrir Agnesi Joy og skrifar handritið ásamt Rannveigu Jónsdóttur og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur. Myndin er framleidd af Birgittu Björnsdóttur og Rannveigu Jónsdóttur fyrir Vintage Pictures og meðframleidd af Mikael Torfasyni og Guðbjörgu Sigurðardóttur. Í aðalhlutverkum eru þau Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Donna Cruz, Þorsteinn Bachmann og Björn Hlynur Haraldsson.

Með sölu og dreifingu erlendis fer Media Move (justyna.koronkiewicz@mediamove.pl) og Sena sér um dreifingu hennar á Íslandi.

Hvítur, hvítur dagur eftir leikstjórann og handritshöfundinn Hlyn Pálmason mun eiga Asíu-frumsýningu á hátíðinni. Myndin verður sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto núna í september og var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, þar sem Ingvar Sigurðsson aðalleikari myndarinnar vann til verðlauna fyrir leik sinn. Nýlega var myndin tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og valin sem ein af 46 kvikmyndum í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin í ár.

Myndin segir frá Ingimundi lögreglustjóra sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Í sorginni einbeitir hann sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst. Þetta er saga um sorg, hefnd og skilyrðislausa ást.

Hvítur, hvítur dagur verður frumsýnd hérlendis þann 6. september og Sena sér um dreifingu hennar á Íslandi.

Nánari upplýsingar um kvikmyndahátíðina í Busan má finna á heimasíðu hátíðarinnar.