Um KMÍ
Á döfinni

24.8.2018

Ásthildur Kjartansdóttir vann Nordic Script Pitch keppnina í Haugasundi

Fjöldi íslenskra kvikmynda á mismunandi stigum framleiðsluferlis voru sýndar og kynntar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi í Noregi, sem fór fram frá 21. – 24. ágúst.

Meðal þeirra fimm verka sem kynnt voru á handritastigi í Nordic Script Pitch voru tvö íslensk, Vergó eftir Ásthildi Kjartansdóttur og Pabbi Karenar eftir Tyrfing Tyrfingsson. Ásthildur bar sigur úr býtum og voru verðlaunin veitt eftir kosningu áhorfenda.

Kvikmyndin Andið eðlilega eftir Ísold Uggadóttir var sýnd í Focus Norden hluta hátíðarinnar.

Tilnefningar til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs voru tilkynntar á hátíðinni. Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson er framlag Íslands og hin dansk/íslenska Vetrarbræður eftir Hlyn Pálmason er framlag Danmerkur. Myndirnar voru sýndar á hátíðinni við þetta tilefni. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn þann 30. október í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Osló.

Tvö íslensk verkefni í þróun voru kynnt á norræna samframleiðslu- og fjármögnunarmarkaðnum, Abbababb! og Skjálfti.

Abbababb! verður leikstýrt af Nönnu Kristínu Magnúsdóttur og er handritið skrifað af Ásgrími Sverrissyni. Ingvar Þórðarson og Júlíus Kemp framleiða fyrir Kvikmyndafélag Íslands.

Skjálfta verður leikstýrt af Tinnu Hrafnsdóttur, sem skrifar einnig handritið.  Hlín Jóhannesdóttir framleiðir fyrir Ursus Parvus.

Þá tók It Hatched, hryllingsmynd í eftirvinnslu eftir Elvar Gunnarsson, þátt í Works in Progress hluta hátíðarinnar og var þar tilnefnd til Eurimages Lab Project verðlaunanna.