Um KMÍ
Á döfinni

17.12.2019

Hildur Guðnadóttir færist nær tilnefningu til Óskarsverðlauna

Tónlist Hildar Guðnadóttur við kvikmyndina um Jókerinn hefur verið valin áfram sem ein af fimmtán tónverkum sem koma til greina í flokknum besta frumsamda kvikmyndatónlistin á Óskarsverðlaununum árið 2020. Þann 13. janúar verða endanlegar tilnefningar birtar, en Óskarsverðlaunahátíðin mun fara fram sunnudaginn 9. febrúar. 

Hildur var nýverið tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna fyrir tónlist sína í Jókernum í flokki besta frumsamda tónlist ársins, auk þess sem hún vann Emmy-verðlaunin fyrr á árinu fyrir tónlist sína í þáttaröðinni Chernobyl. Þá er Hildur jafnframt tilnefnd til Grammy verðlaunanna fyrir sömu þáttaröð. 

Hildur hefur fengið mikið lof gagnrýnenda fyrir tónlist sína í Jókernum þar sem meðal annars segir í The Hollywood Reporter: „Allt þetta verður enn þá myrkara vegna uggandi trega í tónlist Hildar Guðnadóttur sem umbreytist í drynjandi dramtík þegar óreiðan fer á yfirsnúning.“ Í viðtali við AP sagði Joaquin Phoenix, aðalleikari myndarinnar, að tónlist Hildar hafi haft umtalsverð áhrif á þróun persónunnar og andrúmsloftið í kvikmyndinni, en hún byrjaði að semja tónlistina rétt eftir að hafa lesið handritið.

Nánari upplýsingar um Óskarsverðlaunin má finna hér.