Um KMÍ
Á döfinni

9.12.2019

Hildur Guðnadóttir tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna fyrir Jókerinn

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir er tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna fyrir tónlist sína í kvikmyndinni um Jókerinn eftir Todd Phillips, en verðlaunin eru í flokki „besta frumsamda tónlist ársins“. Verðlaunaafhendingin mun fara fram þann 5. janúar næstkomandi. 

Velgengni Hildar á alþjóðavísu hefur verið áberandi undanfarið, en í gær fékk hún einnig tilnefningu til Critics' Choice verðlaunanna fyrir tónlist sína í Jókernum. Þá vann Hildur Emmy-verðlaunin fyrr á árinu í flokki frumsaminnar tónlistar fyrir tónlist sína í þáttaröðinni Chernobyl, og er hún jafnframt tilnefnd til Grammy-verðlaunanna fyrir sömu þáttaröð. Verðlaunaafhending Grammy-verðlaunanna mun fara fram þann 26. janúar í Los Angeles. 

Hildur hefur fengið mikið lof gagnrýnenda fyrir tónlist sína í Jókernum þar sem meðal annars segir í The Hollywood Reporter: „Allt þetta verður enn þá myrkara vegna uggandi trega í tónlist Hildar Guðnadóttur sem umbreytist í drynjandi dramtík þegar óreiðan fer á yfirsnúning.“ Í viðtali við AP sagði Joaquin Phoenix, aðalleikari myndarinnar, að tónlist Hildar hafi haft umtalsverð áhrif á þróun persónunnar og andrúmsloftið í kvikmyndinni, en hún byrjaði að semja tónlistina rétt eftir að hafa lesið handritið.

Allar tilnefningar til Golden Globe-verðlaunanna má finna hér