Um KMÍ
Á döfinni

6.1.2020

Hildur Guðnadóttir vinnur til Golden Globe verðlaunanna

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir vann til Golden Globe verðlaunanna fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker eftir Todd Phillips, en verðlaunin eru í flokki „besta frumsamda tónlist ársins“. Hildur er önnur konan til að vinna verðlaunin fyrir frumsamda kvikmyndatónlist og sú fyrsta til að vinna þau ein. 

Í ræðu sinni þakkaði Hildur samstarfsmönnum og fjölskyldu sinni. Þá tileinkaði hún verðlaunin Kára, syni sínum og lauk þakkarræðunni á orðunum „Þessi er fyrir þig.“ 

Velgengni Hildar á alþjóðavísu hefur verið áberandi undanfarið, en Joker hefur verið valin áfram sem ein af fimmtán tónverkum sem koma til greina í flokknum besta frumsamda kvikmyndatónlistin á Óskarsverðlaununum árið 2020. Þann 13. janúar verða endanlegar tilnefningar birtar, en Óskarsverðlaunahátíðin mun fara fram sunnudaginn 9. febrúar. 

Joker-movie-banner-3

Þá fékk Hildur einnig tilnefningu til Critics' Choice verðlaunanna fyrir tónlist sína í Jókernum. Hún vann Emmy-verðlaunin fyrr á árinu í flokki frumsaminnar tónlistar fyrir tónlist sína í þáttaröðinni Chernobyl, og er hún jafnframt tilnefnd til Grammy-verðlaunanna fyrir sömu þáttaröð. Verðlaunaafhending Grammy-verðlaunanna mun fara fram þann 26. janúar í Los Angeles.