Um KMÍ
Á döfinni

15.3.2021

Já-fólkið eftir Gísla Darra Halldórsson og lagið Husavik tilnefnd til Óskarsverðlauna

Stuttmyndin Já-fólkið eftir Gísla Darra Halldórsson er á meðal fimm mynda sem tilnefndar eru til Óskarsverðlaunanna í flokki styttri teiknimynda. Þá er lagið Husavik úr kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga einnig tilnefnt til verðlaunnanna í flokknum besta frumsamda lagið í kvikmynd.

Óskarsverðlaunahátíðin mun fara fram sunnudaginn 25. apríl 2021 og tilnefningar er að finna á heimasíðu Óskarsverðlaunanna.

Já-fólkið

Já-fólkið hefur fengið góðar viðtökur og ferðast víða á hátíðum síðan hún var heimsfrumsýnd í janúar 2020 á Minimalen stuttmyndahátíðinni í Þrándheimi, Noregi. Gísli Darri Halldórsson leikstýrði og skrifaði handritið að myndinni og framleiðendur eru Arnar Gunnarsson og Gísli Darri fyrir framleiðslufyrirtækið Caoz.

Já-fólkið er teiknimynd sem fjallar um íbúa í ónefndri blokk sem vakna einn vetrarmorgun og rútína hversdagsleikans tekur við - hvort sem það er vinnan, skólinn eða heimilislífið. Við fylgjum fólkinu í einn sólahring en þegar líða tekur á daginn fer lífsmunstur hvers og eins að kristalla persónurnar (dugnaður, leti, fíkn og ástríða). Um kvöldið eru allir komnir heim og um blokkina ómar ýmist ástaratlot eða æpandi þögn sambandsleysis. Að lokum þarf hver og einn að horfast í augu við gjörðir dagsins. Þetta er gamansöm, hálf-þögul teiknimynd um fjötra vanans.

Kvikmyndin Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga gerðist að stórum hluta í bænum Húsavík, en lagið Husavik var skrifað af Savan Kotecha, Fat Max Gsus og Rickard Göransson. Will Ferrell og Molly Sandén syngja lagið. Tónskáldið Atli Örvarsson semur tónlistina í kvikmyndinni, en þó ekki sönglögin. 


Á síðasta ári braut tónskáldið Hildur Guðnadóttir blað í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar með því að vinna Óskarsverðlaun fyrir tónlist sína í myndinni Joker. Þar með varð hún fyrsti Íslendingurinn til að vinna Óskarinn, en níundi Íslendingurinn sem hefur verið tilnefndur til verðlaunanna.

Árið 1983 var Sturla Gunnarsson tilnefndur fyrir After the Axe í flokki bestu heimildamyndarinnar. Friðrik Þór Friðriksson var tilnefndur fyrir Börn náttúrunnar í flokki bestu erlendu kvikmyndar árið 1992. Pétur Hlíðdal hefur verið tilnefndur tvisvar, árið 1996 fyrir fyrir hljóð ársins í kvikmyndinni Batman Forever og árið 2005 fyrir hljóðblöndun í kvikmyndinni The Aviator. Björk Guðmundsdóttir og Sjón voru tilnefnd fyrir lagið I‘ve Seen it All úr kvikmyndinni Dancer in the Dark árið 2001. Rúnar Rúnarsson og Þórir Snær Sigurjónsson kvikmyndagerðarmenn hlutu svo tilnefningu árið 2006 fyrir stuttmyndina Síðasti bærinn. Jóhann Jóhannsson var tilnefndur árin 2015 og 2016 fyrir tónlist sína í kvikmyndunum The Theory of Everything og Sicario