Um KMÍ
Á döfinni

10.2.2021

Já-fólkið í forvali til Óskarsverðlauna í flokknum „Animated Short Film“

Stuttmyndin Já-fólkið eftir Gísla Darra Halldórsson er á meðal tíu stuttmynda sem eru í forvali og gætu fengið tilnefningu til Óskarsverðlauna í flokknum „Animated Short Film“. Þann 15. mars næstkomandi verður kunngjörnt um þær myndir sem tilnefndar verða til verðlaunanna.   

Já-fólkið hefur fengið góðar viðtökur og ferðast víða á hátíðum síðan hún var heimsfrumsýnd í janúar 2020 á Minimalen stuttmyndahátíðinni í Þrándheimi, Noregi. Gísli Darri Halldórsson leikstýrði og skrifaði handritið að myndinni og framleiðendur eru Arnar Gunnarsson og Gísli Darri fyrir framleiðslufyrirtækið Caoz.

https://vimeo.com/513322689

Já-fólkið er teiknimynd sem fjallar um íbúa í ónefndri blokk sem vakna einn vetrarmorgun og rútína hversdagsleikans tekur við - hvort sem það er vinnan, skólinn eða heimilislífið. Við fylgjum fólkinu í einn sólahring en þegar líða tekur á daginn fer lífsmunstur hvers og eins að kristalla persónurnar (dugnaður, leti, fíkn og ástríða). Um kvöldið eru allir komnir heim og um blokkina ómar ýmist ástaratlot eða æpandi þögn sambandsleysis. Að lokum þarf hver og einn að horfast í augu við gjörðir dagsins. Þetta er gamansöm, hálf-þögul teiknimynd um fjötra vanans.

Þá er lagið Husavik úr kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga  á meðal þeirra laga sem komst áfram í forval til Óskarsverðlauna. Lagið er meðal þeirra fimmtán sem akademían velur úr áður en tilkynnt verður hvaða fimm lög eru tilnefnd til verðlaunanna. Tónskáldið Atli Örvarsson semur tónlistina í myndinni, en þó ekki sönglögin. 


Árið 2006 hlutu þeir Rúnar Rúnarsson og Þórir Snær Sigurjónsson kvikmyndagerðarmenn tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir stuttmyndina Síðasti bærinn, en alls hafa níu Íslendingar verið tilnefndir til verðlaunanna. Á síðasta ári braut tónskáldið Hildur Guðnadóttir blað í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar með því að vinna Óskarsverðlaun fyrir tónlist sína í myndinni JokerÞar með varð hún fyrsti Íslendingurinn til að vinna Óskarinn.