Um KMÍ
Á döfinni

1.10.2018

RIFF og Bransadagar RIFF standa nú yfir

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, hófst þann 27. september og stendur yfir til 7. október. Í ár fer hátíðin fram í 15. skipti og líkt og hin fyrri ár verður fjöldinn allur af erlendum og íslenskum kvikmyndum sýndar.

Á meðal íslenskra kvikmynda sem verða sýndar á hátíðinni eru Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson og bandarísk/íslenska stórmyndin Adrift eftir Baltasar Kormák.

Fjöldi íslenskra stuttmynda verða einnig sýndar, þeirra á meðal Pabbahelgar eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur, Ólgusjór eftir Andra Frey Ríkarðsson og Skeljar eftir Ísak Hinriksson.

Allar nánari upplýsingar um dagskrá, hverja mynd, sérviðburði og hvernig skuli nálgast miða er að finna á heimasíðu RIFF.

Bransadagar RIFF

Meðfram hátíðinni fara fram Bransadagar, sem er vettvangur þar sem íslenskt og erlent kvikmyndagerðarfólk getur komist í tengingu við alþjóðlega kvikmyndaheiminn. Þá koma fyrirlesarar úr kvikmyndaiðnaðinum og halda erindi um hin ýmsu mál sem brenna á fagfólki innan kvikmyndageirans. Bransadagar standa yfir til 5. október.

Á morgun, 2. október, fara fram tveir viðburðir tengdir heiðursgestum hátíðarinnar frá Eistlandi:

FERILRANNSÓKN – SVANURINN OG UNDIR HALASTJÖRNU

Þriðjudaginn 2. október frá 12:15 – 13:15 í Norræna húsinu.

Nýverið hafa tvær íslenskar kvikmyndir, Svanurinn og Undir halastjörnu, verið samframleiddar með Eistum.  Leikstjórar myndanna, Ása Helga Hjörleifsdóttir og Ari Alexander Ergis Magnússon ásamt framleiðendum segja frá tilurð samstarfsins.

Þátttakendur: Ása Helga Hjörleifsdóttir, Birgitta Björnsdóttir, Hlín Jóhannesdóttir, Ari Alexander Ergis Magnússon, Kristinn Þórðarson, Evelin Penttilä.

STEFNUMÓT ÍSLENSKRA OG EISTNESKRA KVIKMYNDAGERÐARMANNA

Þriðjudaginn 2. október frá 14:30 -16:00 í Norræna húsinu

Markmið þessa viðburðar er að koma á tengslum á milli íslenskra og eistneskra/erlendra kvikmyndagerðarmanna.

Sjá nánari dagskrá fyrir Bransadaga á heimasíðu RIFF og hér.