Um KMÍ
Á döfinni

9.3.2018

Sumarbörn vann INIS verðlaunin á FIFEM hátíðinni

Sumarbörn, fyrsta kvikmynd Guðrúnar Ragnarsdóttur í fullri lengd, vann INIS verðlaunin á FIFEM – alþjóðlegu barnakvikmyndahátíðinni í Montreal í Kanada. Þetta eru fyrstu alþjóðlegu verðlaun myndarinnar. Sumarbörn vann nýverið til Edduverðlauna fyrir besta Barna- og unglingaefni ársins.

Myndin var frumsýnd hérlendis í Bíó Paradís í október síðastliðnum og frumsýnd erlendis í nóvember á hinni virtu Tallinn Black Nights kvikmyndahátíð í Eistlandi. Þar hlaut hún góðar viðtökur, eins og nánar er greint frá hér.

Sumarbörn hefur hlotið góða dóma, meðal annars hjá Screen International, Morgunblaðinu og Lestinni á Rás 1.

Í byrjun árs var myndin sýnd á Scandinavian Film Festival LA í Bandaríkjunum og tekur nú þátt á Kosmorama – alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Þrándheimi í Noregi. Næst á dagskrá er þátttaka á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Titanic í Búdapest í Ungverjalandi í apríl. Í byrjun maí verður myndin frumsýnd í norskum kvikmyndahúsum.

Sumarbörn segir frá systkinunum Eydísi og Kára, sem eru send til sumardvalar á afskekkt barnaheimili vegna heimiliserfiðleika og fátæktar. Börnin trúa því statt og stöðugt að dvölin verði stutt, en biðin veldur þeim síendurteknum vonbrigðum. Dagarnir líða, en Eydís með sinn sterka lífsvilja og lífsgleði yfirstígur hverja hindrunina eftir aðra með ráðsnilld og dugnaði og umhyggju fyrir Kára bróður sínum.

Guðrún Ragnarsdóttir leikstýrir og skrifar handritið að myndinni. Hún skartar Kristjönu Thors, Stefáni Erni Eggertssyni og Brynhildi Guðjónsdóttur í aðalhlutverkum. Myndin er framleidd af Önnu Maríu Karlsdóttur og Hrönn Kristinsdóttur fyrir Ljósband og meðframleidd af Egil Ødegård fyrir norska framleiðslufyrirtækið Filmhuset Fiction.