Um KMÍ
Á döfinni

4.5.2018

Vargur frumsýnd

Vargur, fyrsta kvikmynd Barkar Sigþórssonar í fullri lengd, var frumsýnd í Smárabíói þann 2. maí. Myndin fer í almennar sýningar þann 4. maí og verður sýnd í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói á Akureyri.

Vargur segir frá bræðrunum Erik og Atla sem eiga báðir við fjárhagsvanda að stríða af ólíkum ástæðum. Saman grípa þeir til þess ráðs að smygla dópi til landsins.  Erik skipuleggur verkefnið í þaula og allt virðist ætla að ganga upp, en óvænt atvik setur strik í reikninginn. 

Börkur Sigþórsson leikstýrir og skrifar handritið að Vargi. Myndin er framleidd af Baltasar Kormáki og Agnesi Johansen fyrir RVK Studios. Bergsteinn Björgúlfsson stýrði kvikmyndatöku og Elísabet Ronaldsdóttir og Sigvaldi J. Kárason klipptu myndina. Ben Frost samdi tónlist myndarinnar. Í aðalhlutverkum eru Gísli Örn Garðarsson, Baltasar Breki Samper, Anna Próchniak og Marijana Jankovic. Með sölu og dreifingu erlendis fer WestEnd Films.

Nóg er um að vera hjá Berki um þessar mundir. Hann mun leikstýra þremur af sex þáttum BBC þáttaraðarinnar Baptiste, sem fer í tökur síðar á árinu og er hann einn af leikstjórum annarrar seríu af Ófærð, sem er nú í tökum og áætlað er að frumsýna í haust á þessu ári. Þar mun hann leikstýra fjórum af 10 þáttum. Áður hafði hann leikstýrt tveimur af tíu þáttum fyrstu seríu Ófærðar. Auk þess leikstýrði hann á síðasta ári einum þætti í bresku þáttaröðinni Endeavour.