Um KMÍ
Á döfinni

20.9.2018

Kona fer í stríð framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2019

Meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar hafa valið kvikmyndina Kona fer í stríð undir leikstjórn Benedikts Erlingssonar sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári. Bandaríska kvikmyndaakademían mun velja níu kvikmyndir á stuttlista í lok árs 2018 og endanlegar tilnefningar á þeim fimm kvikmyndum sem munu keppa um Óskarsverðlaunin fyrir bestu erlendu kvikmynd verða kunngjörðar þann 22. janúar 2019. Óskarsverðlaunin munu svo fara fram í 91. skipti þann 24. febrúar 2019.

Kona fer í stríð hlaut meirihluta atkvæða Akademíumeðlima en kosningu lauk á miðnætti í gær. Kosningin fór fram rafrænt og kosið var á milli þeirra níu íslensku kvikmynda sem uppfylltu það skilyrði bandarísku kvikmyndaakademíunnar að hafa verið frumsýndar á tímabilinu 1. október 2017 til 31. september 2018.

Kona fer í stríð segir frá Höllu, kórstjóra á fimmtugsaldri. Fljótt á litið virðist líf hennar rólyndislegt, en í raun er hún virkur aðgerðasinni sem brennur fyrir umhverfismálum og hefur upp á sitt einsdæmi sagt áliðnaði á Íslandi leynilegt stríð á hendur. Halla er að undirbúa stærstu og djörfustu aðgerð ferils síns þegar henni berst óvænt bréf sem breytir öllu. Umsókn hennar um að ættleiða barn hefur verið samþykkt og hennar bíður nú lítil stúlka í Úkraínu. Fréttirnar verða til þess að Halla ákveður að binda enda á feril sinn sem spellvirki og bjargvættur hálendisins og láta draum sinn um móðurhlutverkið rætast. Áður en að því kemur skipuleggur hún þó eina lokaárás á áliðnaðinn.

Benedikt Erlingsson (Hross í oss) leikstýrir Konu fer í stríð og skrifar handritið ásamt Ólafi Agli Egilssyni. Myndin, sem er íslensk/frönsk/úkraínsk samframleiðsla, er framleidd af Marianne Slot, Benedikt Erlingssyni og Carine Leblanc og meðframleidd af Serge Lavrenyuk, Bergsteini Björgúlfssyni og Birgittu Björnsdóttur. Með aðalhlutverkið fer Halldóra Geirharðsdóttir og í öðrum hlutverkum eru Jóhann Sigurðarson, Davíð Þór Jónsson, Magnús Trygvason Eliassen, Ómar Guðjónsson og Jörundur Ragnarsson. Bergsteinn Björgúlfsson sér um stjórn kvikmyndatöku, Davíð Alexander Corno klippir myndina og Davíð Þór Jónsson semur tónlist myndarinnar.

Með sölu og dreifingu erlendis fer sölufyrirtækið Beta Cinema (thorsten.ritter@betacinema.com)

Kona fer í stríð var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, í maí síðastliðnum og vann þar til samtals fjögurra verðlauna, þar á meðal SACD verðlaunanna fyrir besta handrit. Myndin hefur síðan þá tekið þátt á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto, kvikmyndahátíðinni í Sydney, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni La Rochelle í Frakklandi og alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Melbourne.

Myndin var nýverið tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Hún var einnig tilnefnd til LUX verðlauna Evrópuþingsins og varð þar með fyrsta íslenska kvikmyndin til að hljóta tilnefningu. Þá er myndin einnig í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin.

Kona fer í stríð hefur hlotið lofsamlega dóma, t.a.m. frá hinum virtu kvikmyndatímaritum VarietyThe Hollywood Reporter og CineuropaScreen International og The Guardian veita myndinni einnig góða dóma.

Myndin var frumsýnd hérlendis þann 22. maí síðastliðinn og hafa tæplega 18.000 manns séð hana í íslenskum kvikmyndahúsum. Myndin er ennþá í sýningum í Háskólabíói.

Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið tilnefningu til Óskarsverðlaunanna. Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1992 í flokknum besta erlenda kvikmyndin og árið 2006 var Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson tilnefnd í flokknum besta leikna stuttmyndin.