Um KMÍ
Á döfinni

5.9.2018

Fjórar íslenskar kvikmyndir valdar til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Busan – Undir halastjörnu heimsfrumsýnd

Samtals verða fjórar íslenskar kvikmyndir sýndar á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Busan í Suður Kóreu. Myndirnar eru Undir halastjörnu eftir Ara Alexander Ergis Magnússon, Lof mér að falla eftir Baldvin Z, Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson og hin bandarísk/íslenska Arctic eftir Joe Penna. Hátíðin mun fara fram frá 4. – 13. október.

Undir halastjörnu verður heimsfrumsýnd á hátíðinni og mun taka þátt í World Cinema hluta hennar. Myndin verður frumsýnd hérlendis þann 12. október.

Undir halastjörnu - stikla

Í Undir halastjörnu dreymir Mihkel og Veeru um að flytja frá Eistlandi til Íslands. Óvæntir atburðir gerast sem enda með því að Mihkel deyr kvalarfullum dauða á Íslandi, svikinn af sínum besta og elsta vini.

Ari Alexander Ergis Magnússon leikstýrir og skrifar handritið að Undir halastjörnu. Myndin er framleidd af Friðriki Þór Friðrikssyni, Kristni Þórðarsyni, Leifi B. Dagfinnssyni og Ara Alexander Ergis Magnússyni og meðframleidd af hinum eistnesku Evelin Soosar-Penttilä og Riina Sildos, hinum norska Egil Ødegård og Jörundi Rafni Arnarsyni og Jóhanni G. Jóhannssyni. Í aðalhlutverkum eru Pääru Oja, Kaspar Velberg, Atli Rafn Sigurðarson og Tómas Lemarquis. Davíð Alexander Corno klippir myndina, Tómas Örn Tómasson stýrir kvikmyndatöku og Gyða Valtýsdóttir semur tónlist myndarinnar.

Lof mér að falla mun sömuleiðis taka þátt í World Cinema hluta hátíðarinnar. Um Asíu frumsýningu myndarinnar er að ræða. Myndin verður heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto þann 6. september og verður frumsýnd hérlendis þann 7. september.

Lof mér að falla - stikla

Myndin segir frá hinni 15 ára Magneu sem kynnist hinni 18 ára Stellu og við það breytist allt. Magnea laðast að hispurslausu lífi Stellu og þróar Magnea sterkar tilfinningar til hennar sem Stella notfærir sér til eigin hagsbóta. Stella leiðir Magneu inn í heim fíkniefna sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir þær báðar. 12 árum síðar liggja leiðir þeirra óvænt saman og verður uppgjör á milli þeirra óumflýjanlegt.

Kona fer í stríð mun einnig taka þátt í World Cinema hluta hátíðarinnar. Hún verður sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto og var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, þar sem hún vann til samtals fjögurra verðlauna, þar á meðal SACD verðlaunanna fyrir besta handrit. Nýlega var myndin tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og skömmu áður var hún tilnefnd til LUX verðlauna Evrópuþingsins.

Kona fer í stríð - stikla

Kona fer í stríð segir frá kórstjóra á fimmtugsaldri sem ákveður að bjarga heiminum og lýsir yfir stríði gegn allri stóriðju í landinu. Hún gerist skemmdarverkamaður og er tilbúin til að fórna öllu fyrir móður jörð og hálendi Íslands, þar til munaðarlaus stúlka stígur inn í líf hennar. Að bjarga einu barni eða að bjarga heiminum?

Þá mun Arctic, bandarísk/íslensk kvikmynd Joe Penna, taka þátt í Midnight Passion hluta hátíðarinnar. Um Asíu frumsýningu myndarinnar er að ræða. Myndin var heimsfrumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni, þar sem hún tók þátt í Midnight Screenings hluta hátíðarinnar.

Arctic - brot

Arctic segir frá manni sem er strand á Norðurpólnum. Björgun virðist loks í aðsigi en fer út um þúfur vegna hræðilegs slyss. Hann þarf þá að ákveða hvort hann bíði áfram eftir björgun í hinum tiltölulega öruggu búðum eða haldi í hættulegan leiðangur í þeirri von að bjargast fyrr.

Í aðalhlutverki er Mads Mikkelsen og í aukahlutverki er María Thelma Smáradóttir. Tómas Örn Tómasson sér um stjórn kvikmyndatöku og myndin er meðframleidd af Lilju Ósk Snorradóttur, Snorra Þórissyni og Einari Sveini Þórðarsyni fyrir Pegasus. Fjöldi annarra Íslendinga kom að framleiðslu myndarinnar, sem er öll tekin upp hér á landi og hlaut 25% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði.