Algengar spurningar

Hvaða tegundir styrkja er hægt að sækja um til Kvikmyndasjóðs?

Styrkir sem Kvikmyndasjóður veitir skiptast í fimm meginflokka:

·         Leiknar kvikmyndir í fullri lengd til sýninga í kvikmyndahúsum.
·         Stuttmyndir
·         Heimildamyndir
·         Leikið sjónvarpsefni
·         Kynningarstyrkir

Sjá nánar um tegundir styrkja undir upplýsingum um umsóknir.

Hverjir geta sótt um styrki til Kvikmyndasjóðs?

Til að eiga kost á styrk þarf kvikmynd að vera unnin og kostuð af íslenskum aðilum eða í samstarfi íslenskra og erlendra aðila.

Aðeins íslensk framleiðslufyrirtæki sem hafa kvikmyndagerð að meginstarfi geta sótt um þróunarstyrki, framleiðslustyrki og eftirvinnslustyrki.

Þegar einstaklingar sækja um handritsstyrki er m.a. litið til reynslu og menntunar umsækjanda á sviði kvikmyndagerðar.

Hvenær eru umsóknarfrestir, ef einhverjir?
Hægt er að sækja um styrki hjá Kvikmyndasjóði allan ársins hring og því er ekki um neina umsóknarfresti að ræða.

Hvað tekur afgreiðsla umsókna langan tíma?

Afgreiðsla umsókna tekur að jafnaði 8-10 vikur.

Ef einstaklingur er í forsvari fyrir framleiðslufyrirtæki sem sækir um styrk og er jafnframt handritshöfundur, þarf höfundasamningur að fylgja umsókn?
Já, ef framleiðslufyrirtæki er umsækjandi þarf höfundasamningur alltaf að fylgja umsókn, burtséð frá tengslum höfundar við fyrirtækið.

Hvar nálgast ég lógó KMÍ?
Hægt er að nálgast lógó KMÍ til niðurhals í öllum stærðum og gerðum hér á síðunni undir Merki KMÍ. Merki Kvikmyndamiðstöðvar skal koma fram í upphafs- og lokatitlum kvikmyndar sem hlotið hefur styrk. Þá ber að geta stuðnings Kvikmyndamiðstöðvar á öllu markaðsefni kvikmyndar.

Hvar nálgast ég upplýsingar um íslenskar kvikmyndir?
KMÍ heldur úti gagnagrunni, kvikmyndavefurinn.is, þar sem er að finna lykilupplýsingar um íslenskar kvikmyndir og aðstandendur þeirra. Á vefnum er einnig hægt að hala niður stillum og plakötum og horfa á stiklur.

Er KMÍ söluaðili fyrir íslenskar kvikmyndir?
Nei, KMÍ aðstoðar við kynningu á íslenskum kvikmyndum á ýmsan hátt en selur ekkert efni.


Um KMÍ