Innlendir samstarfsaðilar

Kvikmyndamiðstöð er í nánu samstarfi við fjölda innlendra stofnana og samtaka er snúa að kvikmyndum og kvikmyndagerð.

KVIKMYNDASAFN ÍSLANDS  

Kvikmyndasafn Íslands safnar, skráir og varðveitir kvikmyndir og prentefni er tengist kvikmyndum með einum eða öðrum hætti. Safnið stundar rannsóknir á kvikmyndum og kvikmyndamenningu, og miðlar jafnframt þekkingu um þennan menningararf og starfar eftir kvikmyndalögum. Kvikmyndasafnið hefur eftirlit með skylduskilum kvikmyndaefnis samkvæmt lögum um skylduskil til safna. Forstöðumaður Kvikmyndasafnsins er Þóra Ingólfsdóttir.

ÍSLENSKA KVIKMYNDA- OG SJÓNVARPSAKADEMÍAN (ÍKSA)

Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían er sameiginlegur vettvangur hagsmunafélaga kvikmyndagerðarmanna. ÍKSA vinnur að því að efla íslenska kvikmynda- og sjónvarpsgeirann. Í þessu skyni stendur akademían m.a. fyrir veitingu  Eddunnar, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunanna, ár hvert. Einnig sér ÍKSA um val á framlagi Íslands til Óskarsverðlaunanna. Akademían var stofnuð 1999 og voru fyrstu Edduverðlaunin veitt sama ár. Formaður stjórnar akademíunnar er Hlín Jóhannesdóttir.

FÉLAG KVIKMYNDAGERÐARMANNA (FK)

Félag kvikmyndagerðarmanna stofnað árið 1966 og er heildarsamtök kvikmyndagerðarmanna. Það stendur vörð um hagsmuni þeirra og höfundarrétt auk þess að stuðla að eflingu greinarinnar. Félagið á fulltrúa í stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar og Kvikmyndaráði. Formaður félagsins er Sigríður Rósa Bjarnadóttir.

SAMBAND ÍSLENSKRA KVIKMYNDAFRAMLEIÐENDA (SÍK)

Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda er samband íslenskra félaga og fyrirtækja, sem framleiðir allar tegundir kvikmynda. Tilgangur SÍK er að efla íslenska kvikmyndagerð og gæta hagsmuna og réttar sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda. SÍK kemur fram fyrir hönd aðildarfélaga gagnvart stjórnvöldum, menningarstofnunum, fjölmiðlum og öðrum félagasamtökum. Félagið á fulltrúa í stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar og Kvikmyndaráði og er meðlimur í FIAPF og ACCICOA. SÍK er aðili að Samtökum iðnaðarins. Formaður félagsins er Kristinn Þórðarson.

SAMTÖK KVIKMYNDALEIKSTJÓRA (SKL)

Samtök kvikmyndaleikstjóra  voru stofnuð árið 1989. Tilgangur samtakanna er að efla íslenska kvikmyndagerð og gæta hagsmuna leikstjóra sem starfa við allar tegundir kvikmynda á Íslandi. Samtökin eiga fulltrúa í stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, Bandalagi Íslenskra Listamanna, Kvikmyndaráði, Stjórn IHM, Stockfish Kvikmyndahátíð og Heimilis kvikmyndanna. SKL er meðlimur í FERA, heildarsamtökum evrópska kvikmyndaleikstjóra. Samtökin standa auk þess árlega fyrir vinnusmiðjum með stuðningi Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Formaður félagsins er Ragnar Bragason. Netfang: icelandicdirectors@gmail.com

FÉLAG LEIKSKÁLDA OG HANDRITSHÖFUNDA (FLH)

Verkefni Félags leikskálda og handritshöfunda felast aðallega í samningagerð við atvinnuleikhúsin, Bandalag íslenskra leikfélaga, útvarps-og sjónvarpsstöðvar og framleiðendur leikinna kvikmynda og sjónvarpsefnis. Formaður félagsins er Margrét Örnólfsdóttir.

KLAPPTRÉ

Klapptré er vefur um kvikmyndir og sjónvarp með sérstaka áherslu á Ísland, en birtir einnig efni um alþjóðlegar kvikmyndir og sjónvarpsefni. Klapptré er sjálfstæður miðill. Ritstjóri og ábyrgðarmaður er Ásgrímur Sverrisson.

ÍSLANDSSTOFA (FILM IN ICELAND)

Hlutverk Íslandsstofu er m.a. að styðja við kynningu á íslenskri menningu erlendis, kynna lög um allt að 35% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði fyrir erlendum kvikmynda- og sjónvarpsframleiðendum og  að kynna Ísland sem ákjósanlegan tökustað.  Nánari upplýsingar á vefsíðu Film in Iceland.

CREATIVE EUROPE / MEDIA Á ÍSLANDI

Creative Europe - Kvikmynda og menningaráætlun ESB 2014-2020 er ætlað að styrkja samkeppnishæfni hinna skapandi- og menningarlegu greina og efla menningarlega fjölbreytni. Áætlunin skiptist í MEDIA / kvikmyndir sem styður við kvikmyndir og margmiðlun og Culture / Menning sem styrkir menningu og listir. Upplýsingastofa Creative Europe á Íslandi er til húsa hjá Rannís og þar starfa Ragnhildur Zoëga og Sigríður Margrét Vigfúsdóttir.

Vefur Creative Europe

FÉLAG RÉTTHAFA Í SJÓNVARPS- OG KVIKMYNDAIÐNAÐI (FRÍSK)

Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði eru samtök helstu sjónvarpsstöðva og kvikmyndahúsa á Íslandi. Félagið tekur m.a. saman upplýsingar um aðsókn og tekjur íslenskra kvikmyndahúsa. Félagsmenn eru stærstu sjónvarpsstöðvarnar, dreifingaraðilar myndefnis og kvikmyndahús. 

Stjórnarformaður FRÍSK er Hallgrímur Kristinsson. 

KONUR Í KVIKMYNDUM OG SJÓNVARPI (WIFT) 

Konur í kvikmyndum og sjónvarpi er Íslandsdeild alþjóðlegu WIFT-samtakanna (Women in Film and Television). Samtökin voru stofnuð í Los Angeles á sjöunda áratugnum með það aðalmarkmið að stuðla að fjölbreytni í myndrænum miðlum með því að virkja konur, gera þær sýnilegri og styðja þátttöku þeirra í framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis. 

Formaður WIFT á Íslandi er Anna Sæunn Ólafsdóttir. 

KVIKMYNDASKÓLI ÍSLANDS

Kvikmyndaskóli Íslands sinnir menntun á sviði kvikmyndagerðar. Stefna skólans er að stuðla að uppbyggingu íslensks myndmiðlaiðnaðar með vandaðri kennslu, rannsóknum, fræðslu- og miðlunarstarfi á öllum sviðum kvikmyndagerðar. Markmið skólans er jafnframt að bjóða upp á alþjóðlegt nám í kvikmyndagerð og laða að hæfileikafólk víðs vegar að úr heiminum til að stunda hér nám og störf. Stefna Kvikmyndaskóla Íslands er að komast í röð fremstu kvikmyndaskóla heims.

Rektor Kvikmyndaskóla Íslands er Friðrik Þór Friðriksson.

KVIKMYNDAFRÆÐI VIÐ HÁSKÓLA ÍSLANDS

Kvikmyndafræði er sjálfstæð námsgrein innan Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Hún er kennd sem aðalgrein til 120 eininga og sem aukagrein til 60 eininga.

RITHÖFUNDASAMBAND ÍSLANDS (RSÍ)

Rithöfundasamband Íslands er stéttarfélag rithöfunda, þýðenda, leikskálda og handritshöfunda og eru stór og sameinuð höfundasamtök með um 500 félagsmenn. Meginverkefni sambandsins er að verja starfsumhverfi höfunda og stendur félagið vörð um höfundarétt og fylgist grannt með öllum lagabreytingum sem hafa áhrif á hann ásamt því að sinna kjaramálum og öllum almennum hagsmunum og réttindum íslenskra höfunda.
 


Um KMÍ