Hátíðir og verðlaun

Íslenskar kvikmyndir á hátíðum 2013 - alþjóðleg verðlaun

Þessi texti birtist upphaflega í  Klapptré  2. janúar 2014 og birtist hér með góðfúslegu leyfi ritstjóra.


Alls hlutu íslenskar kvikmyndir 33 verðlaun á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum á árinu 2013 og verður það að teljast ágæt útkoma. Hæst bera dómefndarverðlaun á Cannes til handa stuttmyndinni Hvalfirði eftir Guðmund Arnar Guðmundsson (í fyrsta skipti sem íslensk kvikmynd er verðlaunuð á Cannes), leikaraverðlaun til handa Ólafi Darra Ólafssyni á Karlovy Vary fyrir XL Marteins Þórssonar og síðast en ekki síst, ótrúleg sigurganga fyrstu bíómyndar Benedikts Erlingssonar Hross í oss sem hlaut alls 10 verðlaun á fjórum síðustu mánuðum ársins, þar á meðal á San Sebastian og Tokyo sem báðar teljast með virtustu kvikmyndahátíðum.


Verðlaun til íslenskra kvikmynda á árinu

Hvalfjörður: Stuttmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar hlaut alls 12 alþjóðleg verðlaun á árinu á eftirfarandi hátíðum:  Cannes Frakklandi, Giffoni Ítalíu, Brest Frakklandi, Ghent Sviss, Hamptons Bandaríkjunum, Varsjá Póllandi,  Les Percéides Kanada, Zagreb Króatíu, Chicago Bandaríkjunum, RIFF Íslandi (2), Arcipelago Rússlandi.

Ástarsaga: Stuttmynd Ásu Helgu Hjörleifsdóttur hlaut alls 4 verðlaun á árinu: New Orleans Bandaríkjunum, Northern Wave Íslandi, Rhode Island Bandaríkjunum, Open Place Lettlandi (myndin er lokaverkefni Ásu Helgu frá Columbia kvikmyndaskólanum í New York).

Hrafnhildur – heimildamynd um kynleiðréttingu: Heimildamynd Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur hlaut 1 verðlaun 2013, á Norrænum kvikmyndadögum í Lubeck Þýskalandi.

XL: Bíómynd Marteins Þórssonar hlaut verðlaun á Karlovy Vary í Tékklandi til handa Ólafi Darra Ólafssyni (besti leikarinn).

Hross í oss: Bíómynd Benedikts Erlingssonar fékk alls 10 verðlaun 2013 á eftirfarandi hátíðum:  San Sebastian Spáni, Tokyo Japan, Les Arcs Frakklandi (2), Amiens Frakklandi (2), Black Nights Tallinn Eistlandi (3) og REC Tarragona Spáni. Benedikt, Bergsteinn Björgúlfsson tökumaður og Davíð Þór Jónsson tónskáld voru allir sérstaklega verðlaunaðir.

Víkingar:  Stuttmynd franska leikstjórans Magali Magistry sem gerð var hér á landi með íslenskum leikurum og framleidd af Zik Zak kvikmyndum hlaut 1 verðlaun á síðasta ári, í Amiens Frakklandi. Hún var einnig sýnd á Critic's Week í Cannes.

The Banishing: Stuttmynd Erlings Óttars Thoroddsen hlaut 1 verðlaun á síðasta ári, á hinni virtu hrollvekjuhátíð Screamfest í Los Angeles Bandaríkjunum (Erlingur er nýútskrifaður í kvikmyndaleikstjórn frá Columbia kvikmyndaskólanum í New York).

Fílahvíslarinn (Elephant Whisperer): Heimildamynd Jóhanns Sigfússonar og Önnu Dísar Ólafsdóttur hjá Profilm hlaut 1 verðlaun á árinu, á Japan Wildlife Film Festival, stærstu hátíð Asíu fyrir náttúrulífsmyndir.

Ennfremur skal minnst á sænsk/íslensku myndina Hemma eftir Maximilian Hult sem hlaut áhorfendaverðlaunin á Busan í S-Kóreu og einnig verðlaun kirkjunnar í Mannheim/Heidelberg í Þýskalandi. Myndin er m.a. framleidd af Önnu G. Magnúsdóttur framleiðanda í Svíþjóð og kvikmyndafélaginu Hughrif sem Guðrún Edda Þórhannesdóttir og Friðrik Þór Friðriksson standa að, en var tekin upp hér á landi sumarið 2012.