Yfirlit yfir starfsemi okkar
Kvikmyndamiðstöð Íslands gegnir lykilhlutverki í íslenskum kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði með því að veita fjármagni til framleiðslu íslenskra kvikmynda og sjónvarpsverka, kynna íslenskar kvikmyndir á alþjóðlegum vettvangi og styðja við kvikmyndamenningu á Íslandi með margskonar hætti.
STUTT SÖGULEGT YFIRLIT
Kvikmyndamiðstöð Íslands var sett á fót 2003 í kjölfar nýrra laga sem kváðu á um aukin stuðning stjórnvalda við íslenska kvikmyndagerð. Kvikmyndamiðstöð Íslands tók yfir starfsemi Kvikmyndasjóðs, sem stofnaður var 1979 og gerði reglulega framleiðslu íslenskra kvikmynda mögulega. Frá aldamótum hefur ný kynslóð kvikmyndagerðarmanna tekið upp merki þeirra sem á undan fóru og skapað íslenskum kvikmyndum aukna athygli á alþjóðlegum vettvangi. Framleiðsla kvikmynda og þáttaraða hefur stóraukist og fjölmargar íslenskar kvikmyndir eru nú reglulegir gestir á helstu kvikmyndahátíðum heimsins, auk hundruða annarra ár hvert. Íslenskar kvikmyndir fá marga tugi alþjóðlegra verðlauna árlega og eru seldar og sýndar víða um heim.
KJARNASTARFSEMI
Starf Kvikmyndamiðstöðvar Íslands snýst um að styrkja íslenskar kvikmyndir og kynna þær á erlendum vettvangi. Auk þess leggur Kvikmyndamiðstöð Íslands mikla áherslu á uppbyggingu kvikmyndamenningar í landinu með stuðningi sínum við innlendar kvikmyndahátíðir, námskeið og vinnustofur þar sem innlent og erlent fagfólk, auk upprennandi kvikmyndagerðarmanna, myndar tengsl og skiptist á upplýsingum.
STJÓRNSKIPAN
Kvikmyndalög nr. 137/2001 skilgreina hlutverk Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Kvikmyndasafns Íslands og Kvikmyndaráðs. Menntamálaráðherra fer með yfirumsjón kvikmyndamála og skipar forstöðumann til fimm ára í senn. Tekjur Kvikmyndamiðstöðvar Íslands eru árlegt framlag í fjárlögum.
KVIKMYNDASTEFNA
Vorið 2019 skipaði Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, verkefnahóp með fulltrúum stjórnvalda og atvinnulífs til að móta heildstæða stefnu fyrir kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu á Íslandi, sem gilda á til ársins 2030.
Sjá: Kvikmyndastefna 2020 - 2030
Mennta- og menningarmálaráðuneytið, fjármálaráðuneytið, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna og Samtök kvikmyndaleikstjóra gerðu um árabil samkomulag til ákveðins tíma um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð.
Sjá: Samkomulag um stefnumörkun fyrir kvikmyndagerð 1998-2019
KVIKMYNDARÁÐ
Kvikmyndaráði er ætlað að veita stjórnvöldum ráðgjöf og gera tillögur um stefnu og markmið á sviði kvikmyndalistar. Ráðherra skipar átta fulltrúa í kvikmyndaráð til þriggja ára í senn, formann án tilnefningar, en hina sjö samkvæmt tilnefningum eftirtalinna:
Félags leikskálda og handritshöfunda, Félags kvikmyndagerðarmanna, Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Samtaka kvikmyndaleikstjóra, Félags kvikmyndahúsaeigenda, Bandalags íslenskra listamanna og Félags íslenskra leikara. Varamenn eru skipaðir með sama hætti.
STYRKIR
Kvikmyndasjóður er sérstök eining innan Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, hvers tilgangur er að veita fé til gerðar íslenskra kvikmynda og sjónvarpsefnis.
Styrkir úr Kvikmyndasjóði skiptast milli eftirfarandi þátta:
- Kvikmynda í fullri lengd
- Heimildamynda
- Stuttmynda
- Leikins efnis fyrir sjónvarp
- Minnihluta samframleiðslu
- Kynningar erlendis
Hægt er að fá styrki vegna handritaskrifa, verkefnaþróunar, framleiðslu, eftirvinnslu og kynningar.
Nánari upplýsingar um sjóðinn og úthlutunarreglur hans má finna í reglugerð (einnig hægt að nálgast Word skjal).
KYNNINGARMÁL
Eitt helsta hlutverk Kvikmyndamiðstöðvar Íslands er að kynna íslenskar kvikmyndir erlendis. Starfsfólk Kvikmyndamiðstöðvar er viðstatt helstu kvikmyndahátíðirnar; stendur fyrir íslenskum kvikmyndadögum og yfirlitssýningum á íslenskum kvikmyndum í samvinnu við hátíðir, samtök og stofnanir víða um heim; ræktar mikil tengsl við erlenda samstarfsaðila og vinnur að því að íslenskar kvikmyndir af öllu tagi séu vel kynntar og sýnilegar á alþjóðlegum vettvangi .
ENDURGREIÐSLUR VEGNA KVIKMYNDAGERÐAR
Kvikmyndamiðstöð Íslands fer einnig með umsóknir um endurgreiðslur sem til falla vegna kvikmyndagerðar hér á landi.