Hátíðir og verðlaun

Alþjóðlegar kvikmyndahátíðir

Helstu kvikmyndahátíðir ásamt frekari upplýsingum um þær.

Kvikmyndahátíðir heimsins skipta þúsundum og íslenskar kvikmyndir taka þátt í mörg hundruð þeirra á hverju ári. Kvikmyndamiðstöð Íslands ræktar tengsl við helstu kvikmyndahátíðir víðs vegar um heim og styðst við flokkun alþjóðlegra samtaka kvikmyndaframleiðenda (International Federation of Film Producers Association - FIAPF) á kvikmyndahátíðum.

Meðal helstu hátíða sem lögð er áhersla á í kynningarstarfi Kvikmyndamiðstöðvar eru alþjóðlegu kvikmyndahátíðirnar í Cannes, Berlín, Karlovy Vary, San Sebastian, Feneyjum, Busan, Shanghai, Melbourne, Toronto, Mosku, Tallinn og Varsjá.

Á Norðurlöndunum er lögð sérstök áhersla á hátíðirnar í Gautaborg og Haugasundi auk Nordisk Panorama, en á þessum hátíðum eru norrænar myndir kynntar fyrir alþjóðlegum kaupendum og hátíðum. 

Nánar er gerð grein fyrir þessum hátíðum og ýmsum öðrum hér að neðan.

HELSTU HÁTÍÐIR:

CANNES   

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Cannes er helsta kvikmyndahátíð heims enda stundum kölluð "hátíð hátíðanna". Hún var stofnuð 1946, fer venjulega fram í maí ár hvert og nýtur jafnan mikillar alþjóðlegrar athygli. Keppnisflokkar hátíðarinnar eru þrír; aðalkeppnin þar sem keppt er um Gullpálmann, Un Certain Régard og Stuttmyndakeppnin. Að auki fara tvær hliðardagskrár fram á hátíðinni, Director's Fortnight sem Félag franskra kvikmyndaleikstjóra heldur utan um og The International Critics' Week sem rekin er af samtökum franskra kvikmyndagagnrýnenda. Margskonar aðrir viðburðir fara fram á hátíðinni og má þar helst nefna Kvikmyndamarkaðinn (Marché du film) sem er stærsti kvikmyndamarkaður heimsins. 

BERLÍN   

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Berlín, eða Berlinale, er ein helsta kvikmyndahátíð heims og ein sú umfangsmesta. Hún var stofnuð 1951 og sýnir árlega um 400 kvikmyndir hvaðanæva að, sem um 300 þúsund gestir sjá í febrúar ár hvert. Um 20 myndir keppa hverju sinni um Gullbjörninn og ýmis önnur verðlaun, en auk þess eru myndir sýndar í nokkrum öðrum flokkum. The European Film Market (EFM) fer fram samhliða hátíðinni en það er einn helsti viðburður sinnar tegundar. The Berlinale Talent Campus er einnig í gangi meðan á hátíðinni stendur en þar sækir ungt kvikmyndagerðarfólk, hvaðanæva að, fyrirlestra og vinnustofur og myndar tengsl.

FENEYJAR 

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Feneyjum er elsta kvikmyndahátíð heimsins og ein hinna "þriggja stóru" ásamt Cannes og Berlín. Hátíðin var stofnuð 1932 og fer að jafnaði fram í septembermánuði. Í aðalkeppninni er meðal annars keppt um Gullna ljónið auk margra annarra verðlauna. Ásamt Toronto hátíðinni markar hún upphafið að "verðlaunatímabilinu" svokallaða (The Awards Season) sem nær hámarki með afhendingu Óskarsverðlaunanna í febrúar eða mars.

TORONTO

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Toronto, Kanada, er fjölsóttasta hátíð heims en um hálf milljón gesta sækir hana að jafnaði í hverjum septembermánuði og um fimm þúsund manns úr alþjóðlegum kvikmyndaheimi. Hundruðir kvikmynda af fjölbreyttu tagi eru á dagskrá hátíðarinnar hverju sinni í fjölmörgum flokkum. Hátíðin var stofnuð 1976 og hefur fyrir löngu unnið sér sess sem einskonar hlið að Ameríkumarkaði kvikmynda, en öflugur markaður fer einnig fram á hátíðinni. Áhorfendaverðlaun hátíðarinnar þykja gjarnan gefa vísbendingu um velgengni á "verðlaunatímabilinu" svokallaða. 

KARLOVY VARY   

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Karlovy Vary í Tékklandi fer fram í júlí ár hvert og er leiðandi hátíð í Mið- og Austur-Evrópu. Hún var stofnuð 1946 og er því í hópi elstu hátíða. Í aðalkeppninni er keppt um Krystallshnöttinn, en fjölmargir aðrir flokkar eru í boði á hátíðinni, auk fyrirlestra, yfirlitssýninga og ýmiskonar annarra viðburða. Tímaritið Variety velur árlega tíu myndir á hátíðinni sem það vill vekja sérstaka athygli á (Variety Critics' Choice) og European Film Promotion stendur fyrir viðburðinum Future Frames: Ten New Filmmakers To Follow, þar sem tíu nýútskrifaðir leikstjórnarnemar kynna myndir sínar. 

SAN SEBASTIAN

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í San Sebastian á Spáni er ein af lykilhátíðum Evrópu. Hún var stofnuð 1953 og fer yfirleitt fram í septembermánuði. Hátíðin sýnir jafnan þverskurð af nýjum alþjóðlegum kvikmyndum, með sérstaka áherslu á fyrstu og aðrar myndir leikstjóra. Myndir í aðalkeppni keppa um Gullnu skelina, en einnig eru veitt mörg önnur verðlaun í ýmsum flokkum. 

BUSAN   

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Busan í S-Kóreu er ein helsta hátíðin í Asiu, en hún var stofnsett 1996. Alþjóðleg samkeppni fer fram í einum flokki (New Currents), en myndir eru sýndar undir ýmsum merkjum á hátíðinni, sem sýnir þverskurð af þeim myndum sem hæst bera hverju sinni á alþjóðlegum vettvangi auk þess að sýna myndir upprennandi leikstjóra, s-kóreskar myndir og það nýjasta frá Asíu. The Asian Film Market fer fram samhliða hátíðinni og spilar lykilhlutverk í að koma kvikmyndum á asískan markað.

SHANGHAI   

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Shanghai í Kína hefur markað sér sess sem einn helsti kvikmyndaviðburður í Asíu. Hátíðin var fyrst haldin 1993 og keppa myndir í aðalflokki hennar um Gullna bikarinn. Öflugur markaður er rekinn meðfram hátíðinni og boðið uppá verkefnakynningar og samframleiðslufundi auk margskonar viðburða.  

MELBOURNE

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Melbourne í Ástralíu á sér langa sögu en hún var fyrst haldin 1952. Hátíðin sýnir helstu tegundir mynda eins og bíómyndir, heimildamyndir og stuttmyndir í ýmsum flokkum og telst einn stærsti kvikmyndaviðburður Ástrala. Sérstök áhersla er lögð á evrópskar kvikmyndir. Áhorfenda- og gagnrýnendaverðlaun eru veitt fyrir myndir í fullri lengd og fjöldi ýmiskonar verðlauna fyrir stuttmyndir. 

MOSKVA  

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Moskvu var fyrst haldin 1935 en reglulega frá 1959 og er helsta hátíð Rússlands. Hún fer að jafnaði fram í júní. Verðlaun aðalkeppninnar eru hinn gullni Georg, sem jafnframt er merki Moskvuborgar. Hátíðin sýnir fjölda mynda í mörgum flokkum og má þar nefna fókusa á tiltekin lönd, klassík, myndir upprennandi leikstjóra og margt fleira. 

TALLINN 

Tallinn Black Nights Film Festival (PÖFF) er haldin í nóvember ár hvert. Þetta er lykilhátíð Eystrasaltslandanna og ein stærsta hátíðin í norðaustanverðri Evrópu. Hún var stofnuð 1997. PÖFF sýnir á þriðja hundrað kvikmyndir víðsvegar að og yfir 80 þúsund gestir sækja hana hverju sinni. Hátíðin býður uppá þrjá keppnisflokka, Alþjóðlegar myndir, Fyrstu myndir og Eistneskar myndir. Aðalverðlaunin, Gullni úlfurinn, eru veitt fyrir bestu alþjóðlegu myndina. Samhliða hátíðinni eru haldnir umfangsmikilir bransadagar þar sem meðal annars er boðið uppá samframleiðslumessu, kynningar dreifingaraðila og sölufyrirtækja og handritavinnustofur auk þess sem verk í vinnslu eru kynnt. Samhliða heldur PÖFF einnig barna- og unglingamyndahátíð, teiknimyndahátíð og stuttmyndahátíð.

VARSJÁ

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Varsjá Póllandi var stofnuð 1985 og sýnir bíómyndir, heimildamyndir og stuttmyndir í mörgum flokkum. Hún fer fram í októbermánuði. Helsti flokkurinn er alþjóðlega samkeppnin, en hátíðin leggur einnig áherslu á fyrstu myndir leikstjóra og hverskyns tilraunaverk.

LOCARNO

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Locarno Sviss er ein sú stærsta sinnar tegundar. Hátíðin var stofnuð árið 1946 og fer yfirleitt fram í ágústmánuði. Aðalkeppni hátíðarinnar nefnist Concorso internacionale þar sem keppt er til Golden Leopard verðlaunanna. Að auki er Piazza Grande flokkurinn vel þekktur en myndir í þeim flokki eru sýndar á megin torgi Locarno sem tekur 8000 manns í sæti. Önnur verðlaun sem veitt eru á hátíðinni eru heiðursverðlaunin Leopard Of Honor for Career Achievement og áhorfendaverðlaun, Prix du Public.

NORRÆNAR HÁTÍÐIR:

GAUTABORG

Kvikmyndahátíðinni í Gautaborg var hleypt af stokkunum 1979 og er langstærsta hátíð Norðurlanda. Hátíðin sýnir hátt í fimm hundruð alþjóðlegar kvikmyndir hverju sinni og gestir eru um 115 þúsund. Aðalverðlaunin, Drekinn, eru veitt norrænum myndum í ýmsum flokkum. Keppni um bestu norrænu myndina ber þar hæst.  Samhliða hátíðinni er rekinn markaður fyrir norrænar kvikmyndir sem og bransamessa. 

HAUGASUND

Kvikmyndahátíðin í Haugasundi í Noregi, eða The Norwegian International Film Festival eins og hún er formlega kölluð, kynnir árlega nýjar norrænar kvikmyndir fyrir norrænum dreifingaraðilum og öðrum kaupendum víðsvegar að. Hátíðin er jafnframt vettvangur samræðna milli aðila í norrænum kvikmyndaiðnaði um bæði fagleg efni sem og stefnur og strauma. Sögu hátíðarinnar má rekja allt til 1973, en frá 1987 hefur hún verið haldin árlega í Haugasundi. 

NORDISK PANORAMA

Stutt- og heimildamyndahátíðin Nordisk Panorama er helsta hátíð sinnar tegundar á Norðurlöndum og sýnir eingöngu slíkar myndir eftir norræna kvikmyndagerðarmenn. Hátíðin var stofnuð 1990 og lengst af var hún haldin til skiptis í hverju Norðurlandanna fimm. Hún fór fram í Reykjavík á árunum 1994, 1999, 2004 og 2009. Frá 2013 hefur hún átt fast aðsetur í Malmö í Svíþjóð. Hátíðin nýtur meðal annars stuðnings kvikmyndamiðstöðva allra Norðurlandanna, Norðurlandaráðs og Creative Europe áætlunar ESB. Veitt eru verðlaun fyrir bestu heimildamyndina, stuttmyndina og björtustu vonina (Best New Nordic Voice), auk áhorfendaverðlauna.

HELSTU HEIMILDAMYNDAHÁTÍÐIR:

Til fróðleiks eru hér tíndar til nokkrar af helstu heimildamyndahátíðum heimsins. Frekari upplýsingar um slíkar hátíðir má meðal annars finna hér

Nokkur fjöldi heimildamyndahátíða er á skrá Bandarísku kvikmyndaakademíunnar sem stendur fyrir Óskarsverðlaununum og koma vinningsmyndirnar þá til greina í Óskarsval vegna stuttra heimildamynda. Á listanum eru einnig ýmsar aðrar stærri hátíðir. Listann má finna hér (vegna Óskarsverðlauna 2021), en athugið að hann getur breyst ár frá ári. 

IDFA

The International Documentary Film Festival Amsterdam (IDFA) er ein stærsta heimildamyndahátíð heims og hefur verið haldin árlega síðan 1988. Hátíðin leggur áherslu á skapandi heimildamyndir og sýnir um 200 slíkar hverju sinni. Um 120 þúsund gestir sækja hana í hverjum nóvembermánuði. Verðlaun eru veitt í mörgum flokkum og fjölmargar myndanna eru heimsfrumsýndar á hátíðinni. Í tengslum við hátíðina fara einnig fram málþing, umræður og vinnustofur, auk markaðar.

HOT DOCS

Heimildamyndahátíðin Hot Docs, sem stofnsett var 1993, er stærst sinnar tegundar í N-Ameríku. Hún fer fram í Toronto, Kanada, í apríl/maí og sýnir á þriðja hundrað heimildamynda árlega. Á þriðja hundrað þúsund gesta sækja hana. Þetta er alþjóðleg samkeppni en auk þess er þarna öflugur markaður fyrir heimildamyndir og haldnar eru kynningarmessur (pitch sessions) fyrir væntanleg verkefni. Yfir tvö þúsund manns úr alþjóðlegum kvikmyndaiðnaði sækja hátíðina að jafnaði; kaupendur, dagskrárstjórar, dreifingaraðilar og kvikmyndagerðarmenn. 

SHEFFIELD

Alþjóðlega heimildamyndahátíðin í Sheffield, Englandi, fer fram í júnímánuði. Auk þess að sýna mikinn fjölda alþjóðlegra heimildamynda rekur hátíðin einnig markað. Verðlaun eru veitt í fjölda flokka. Hátíðin var fyrst haldin 1994 og hefur skapað sér nafn sem ein helsta hátíð sinnar tegundar í heiminum.

DOK LEIPZIG

Dok Leipzig hátíðin er ein elsta heimildamyndahátíð heimsins, stofnuð 1955. Samhliða hátíðinni er einnig rekin dagskrá fyrir fagfólk, DOK Industry. Um 30 þúsund manns sækja hátíðina árlega í októbermánuði.

VISIONS DU RÉEL

Visions du Réel er ein virtasta hátíð heimildamynda í heiminum og hefur verið haldin síðan 1969 í Nyon í Sviss. Hátíðin fer fram í apríl ár hvert. 

THESSALONIKI

Heimildamyndahátíðin í Thessaloniki í Grikklandi fer fram í marsmánuði, en hún var stofnsett 1999. Hún leggur sérstaka áherslu á myndir sem fjalla um félagslega eða menningarlega þróun. Þetta er ekki keppnishátíð en veitt eru áhorfendaverðlaun, auk þess sem aðilar á borð við grísku sjónvarpsstöðina ERT3. Amnesty International og World Wide Fund for Nature (WWF) veita verðlaun. Myndir í aðaldagskrá geta einnig hlotið verðlaun Alþjóðasamtaka gagnrýnenda, FIPRESCI.

CPH:DOX

Alþjóðlega heimildamyndahátíðin í Kaupmannahöfn (CPH:DOX) var stofnuð 2003 og sýnir um 200 kvikmyndir í mars ár hvert. Hún er ein af stærstu heimildamyndahátíðum Evrópu, en um 100.000 manns sækja hana árlega. Fjöldi hverskyns viðburða fer fram á hátíðinni og má þar nefna messu fyrir fagfólk (CPH:FORUM) og heimildamyndamarkað (CPH:MARKET) auk sérstakrar dagskrár fyrir ungt kvikmyndagerðarfólk (CPH:LAB).


STUTTMYNDAHÁTÍÐIR:

Alþjóðlegar stuttmyndahátíðir eru mýmargar um veröld víða. Nokkur fjöldi þeirra er á skrá Bandarísku kvikmyndaakademíunnar sem stendur fyrir Óskarsverðlaununum og koma vinningsmyndirnar þá til greina í Óskarsval vegna stuttmynda. Á listanum eru einnig ýmsar aðrar stærri hátíðir. Listann má finna hér  (vegna Óskarsverðlauna 2021), en athugið að hann getur breyst ár frá ári. Lista yfir helstu stuttmyndahátíðir eftir löndum má finna hér.

Margar af helstu hátíðunum sem nefndar hafa verið hér fyrir ofan eru einnig með sérstaka flokka tileinkaða stuttmyndum. Þar má m.a. nefna alþjóðlegu kvikmyndahátíðirnar í Cannes, Berlín, Feneyjum, Locarno og Nordisk Panorama.

CLERMONT - FERRAND

Alþjóðlega stuttmyndahátíðin í Clermont-Ferrand er ein af fáum svokölluðum „A“ hátíðum og er hún stærsta kvikmyndahátíð heims sem er einungis helguð stuttmyndum. Í flokknum alþjóðlegar stuttmyndir er keppt um aðalverðlaunin „Grand Prix“ og til viðbótar eru gefin verðlaun fyrir bestu teiknimyndina, bestu evrópsku myndina, áhorfendaverðlaun og sérstök dómnefndarverðlaun. Hátíðin fer fram árlega í Clermont-Ferrand í Frakklandi og samhliða henni fer fram stuttmyndamarkaður þar sem m.a. má finna samframleiðslumarkaðinn Euro Connection, verkefnakynningar, auk fjölda stuttmynda sem þátttakendum markaðsins býðst að horfa á.

BARNA- OG FJÖLSKYLDUHÁTÍÐIR

Margar alþjóðlegar kvikmyndahátíðir eru sérstaklega tileinkaðar kvikmyndum í flokki barna- og fjölskyldumynda. Helstu barna- og fjölskylduhátíðir heimsins eru m.a. kvikmyndahátíðirnar Buster, BUFF, Cinekid, Giffoni, Kristiansand, Lucas, Schlingel og Zlín.