Fjárheimildir KMÍ á árinu 2022

Samkvæmt fjárlögum ársins 2022 er tiltekið að rekstrafé Kvikmyndamiðstöðvar Íslands (KMÍ) muni nema 1.377 m.kr. á árinu. Þar af rennur 205 m.kr. til rekstrarliðar KMÍ en 1.472 m.kr. til Kvikmyndasjóðs.

Fjarlog2022

Sé mið tekið af fjárheimildum fyrra árs er um að ræða 27 m.kr. lækkun í framlagi til Kvikmyndasjóðs, sem nemur um 2% af heildarframlagi til sjóðsins. Þó ber að geta þess að árið á undan hækkaði framlag til stofnunarinnar verulega vegna nýrra verkefna kvikmyndastefnu.

Af framlagi Kvikmyndasjóðs er um 1.400 m.kr. skipt niður á greinar kvikmyndagerðar til úthlutunar styrkja til kvikmyndagerðar. Þar renna um 755 m.kr. til leikinna kvikmynda (54%), um 393 m.kr. til leikins sjónvarpsefnis (28%) og 250 m.kr. til heimildamynda (18%).

Annað fjármagn kvikmyndasjóðs er m.a. nýtt til verkefna á sviði kvikmyndamenningar eins og að styrkja kvikmyndahátíðir, listræn kvikmyndahús og námskeið og vinnustofur til eflingar geirans. Þá er fjármunum sjóðsins varið til sýningarstyrkja, til aðildargjalda að erlendum sjóðum sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn geta sótt fjármagn til og til launa ráðgjafa sem leggja mat á umsóknir um styrki til framleiðslu kvikmynda.

Sjá nánar hér.

Sjá kvikmyndastefnu og ný verkefni

Sjá fjárlög fyrir árið 2022



Um KMÍ